Vinnusmiðja á vegum Svavarssafns

0
271

Í síðustu viku komu í sveitarfélagið þrír listamenn sem gestakennarar á vegum Svavarssafns og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Þær Hanna Dís Whitehead, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir og Steinunn Önnudóttir, sem eru vel þekktar í listaheiminum og hafa fengið m.a. tilnefningar til íslensku myndlistarverðlaunanna auk þess sem Steinunn hlaut styrk Svavars og Ástu árið 2019 fyrir upprennandi listmenn. Árið 2022 unnu þær saman að sýningu í Ásmundarsal þar sem þær rannsökuðu nytjahluti, notagildi og fagurfræði. Nú mættu þær hingað í sveitarfélagið með það markmið að rannsaka nytjahluti úr Byggðarsafnsgeymslum og skapa námsefni fyrir nemendur.
Í rannsókn þeirra voru þær að skoða nytjahluti á Byggðarsafninu út frá notagildi, handverki og sérstöðu svæðisins. Í upphafi vinnusmiðjunnar gáfu þær nemendum í 1-4 bekk grunnskólans og listnemendum við FAS innsýn inn í nokkur hugtök úr rannsóknarvinnunni. Hugleiðingum um listmuni og nytjahluti var varpað upp með nemendum og farið var í hugarflug um gagnsemi, listfengi og skapandi ferli.
Eftir hugarflugið fóru nemendur í skapandi vinnu. Allir nemendur skissuðu upp skema af eigin nytjahlutum úr daglegu lífi. Í framhaldinu unnu nemendur einn hlut lengra í teikningu áður en haldið var á næsta þrep. Með 1. bekk fóru þær að búa til skrautmuni sem voru líka nytjahlutir, dúkar, blóm og vasar sem nemendur sköpuðu í samvinnu. Með 2. og 3. bekk var farið í mynstur og veggfóður sem leiddi til þess að nemendur sköpuðu sinn eigin stimpil sem var svo notaður til að stimpla á pappírsrenning sem í samsköpun skapaði það veggfóður. Með 4. bekk og nemendur á listasviði FAS var unnið með eigin nytjahlut í leir og mótað var negatívu úr honum. Þegar búið var að slétta og laga kanta var helt gifsi ofan í mótin og úr varð gif-lágmynd sem þau máluðu með vatnslitum.
Afrakstur þessarar viðamiklu vinnu má sjá á veggjum í Nýheima. Verk 109 grunnskólanemendanna eru inni á bókasafni; hangandi veggfóður, dúkar og blóm á borðum og lágmyndir á víð og dreif á milli bóka. Lágmyndir listnema við FAS eru hangandi uppi á gula-veggnum sem má finna þegar þið gangið upp tröppurnar í FAS og er þar beint af augum.
Verkefnið er styrkt af Barnamenningar-sjóði og er samstarf listamannana við Svavarssafn og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Við erum þeim Hönnu, Steinunni, Guðlaugu innilega þakklát fyrir þessa vinnu. Að taka okkur í ferðalag og innsýn á möguleikanum fyrir því sem Byggðarsafnið, samfélagið og sérstaðan okkar hefur upp á að bjóða.