Viðburðarík aðventuhelgi á Höfn

0
1286
Jólatréð er hið glæsilegasta

Síðastliðinn laugardag var haldin jólahátíð í Nýheimum á vegum Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.
Nemendafélag FAS, NemFAS, stóð fyrir kaffihúsastemningu á Nýtorgi þar sem hægt var að versla sér góðgæti og kaffi með og styrkja þannig félagsstarf nemenda. Til stendur að halda jólaball fyrir nemendur þann 19. desember, en NemFAS hefur haldið uppi öflugu starfi í vetur, og haldið fjölda viðburða s.s kökubasar, þriggja kvölda spilavist og fleira.
Boðið var upp á tónlistaratriði ásamt því að börnum og fullorðnum var boðið að föndra inni á bókasafni og svo kíktu jólasveinarnir einnig í heimsókn og glöddu yngstu kynslóðina með mandarínum. Herlegheitin enduðu svo með því þegar ljósin voru tendruð á jólatréi sveitarfélagsins og lúðrasveit Hornafjarðar flutti nokkur lög.
Tónskóli A-Skaft. hélt svo upp á 50 ára afmæli sitt sunnudaginn 1. desember með tónleikum í Sindrabær. Jóhann Morávek skólastjóri tónskólans hélt ræðu og einnig Matthildur Ásmundardóttir og í framhaldi komu nemendur skólans fram og fluttu tónlist ásamt kennurum. Eftir tónleikana var gestum boðið upp á kökuhlaðborð og kaffi. Stefnir skólinn að halda fleiri viðburði til að fagna afmælisárinu.
Einnig var lágstemmt kaffiboð í Heklu félagsheimili Ungmennafélagsins Sindra en það fagnaði 85 ára afmæli þennan sama dag og gátu því hungraðir og kaffiþyrstir Hornfirðingar haft nóg fyrir stafni þann 1. í aðventu.