Ungmennastarf

0
578

Síðasta ár hefur Nýheimar þekkingarsetur staðið fyrir þremur ólíkum valdeflandi viðburðum fyrir ungmenni á svæðinu í gegnum evrópskt samstarfsverkefni sem styrkt er af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Verkefnið KNOW HUBs fjallar um valdeflingu jaðarhópa og kaus setrið að leggja áherslu á unga fólkið enda hafa niðurstöður fyrri verkefna Nýheima sýnt að ungmenni í sveitarfélaginu telja sig utangátta í samfélaginu og tilheyra hvorki samfélagi barna né fullorðinna.
Samstarfsaðilar KNOW HUBs settu saman handbók með 20 hæfniþáttum til valdeflingar og hlutu tveir starfsmenn Nýheima þekkingarseturs fræðslu um miðlun efnisins. Í desember síðastliðnum bauð setrið Ungmennaráði Hornafjarðar og Nemendaráði FAS á tveggja kvölda námskeið sem kallað var Öflug ung forysta og fjallaði um stöðu þessa hóps í forsvari fyrir ungmenni á svæðinu og hvernig þau geta eflt sig og starfsemi ráðanna. Að námskeiði loknu voru ungmennin beðin um að koma á framfæri hvernig betur mætti ná til hópsins og hvernig fræðslu skorti fyrir þennan hóp, fjölbreytt lífsleiknifræðsla var nefnd sem og fyrirtækið KVAN sem sérhæfir sig í valdeflingu ungmenna. Frá janúar til mars var svo komið að sex vikna valdeflingarnámskeiðinu Hittu í mark! þar sem öllum ungmennum 16-20 ára óháð námi eða starfi var boðin þátttaka, 11 stúlkur skráðu sig til þátttöku og sjö luku námskeiðinu. Að lokum fengum við KVAN til liðs við okkur og héldu þau Kvöldstund með KVAN mánudaginn 28. september, eftir ítrekaðar frestanir vegna COVID. Þjálfarar KVAN fóru yfir mikilvæg málefni svo sem kröfur samfélagsins og áhrif einstaklingsins. 11 þátttakendur tóku þátt, þar af þrír strákar. Mikið var um hlátrasköll og líflegar umræður og höfðu þátttakendur orð á skemmtana- og notagildi viðburðarins. Þjálfarar KVAN náðu vel til hópsins og voru sérstaklega ánægð með umræðurnar um samfélagið, vináttu og slúður, sem voru mjög djúpar.

Nýheimar þekkingarsetur vill áfram leggja áherslu á málefni ungra Hornfirðinga og tökum öllum hugmyndum fagnandi um hvernig betur má ná til fjöldans.