Unglingadeildin Brandur

0
217

Í Björgunarfélagi Hornafjarðar starfar Unglingadeildin Brandur. Unglingadeildin hefur starfað í mörg ár en hefur tekið löng hlé inni á milli. Að starfa í unglingadeildinni Brandi er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Allir á aldrinum fimmtán til átján ára geta tekið þátt en þegar einstaklingar hafa náð átján ára aldri mega þeir fara yfir í stóru deildina en það er valfrjálst. Í unglingastarfi fá ungmenni leiðsögn frá reyndu björgunarsveitarfólki, öðlast færni og þekkingu á björgunarstörfum og læra að athafna sig í náttúru Íslands.
Við í Brandi erum dugleg að heimsækja aðra viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkvilið og sjúkraflutningamenn. Einnig förum við stundum í dags- og helgarferðir sem er alltaf ægilega skemmtilegt. Það er mjög lærdómsríkt að starfa í unglingadeild þar sem við lærum skyndihjálp, sig og júmm, sjóbjörgun, leitartækni, hnúta, straumvatnsbjörgun svo eitthvað sé nefnt.
Annað hvert ár er landsmót, en þar hittast allar unglingadeildir á landinu. Það sem er gert á mótinu er ansi margt þar sem mótið stendur yfir frá miðvikudegi til sunnudags. Hópnum er skipt í lið og þau keppast um sigur á mótinu. Árið 2022 var landsmótið haldið hér á Höfn í Hornafirði, mótið heppnaðist mjög vel, við kynntumst fullt af fólki og minningarnar munu alltaf lifa. Á hverju ári í nóvember er haldið svokallað Miðnæturmót í Vatnaskógi og hittast þá unglingar af öllu landinu. Keppnin stendur yfir alla nóttina og keppast deildirnar á móti hvor annarri, farið er á nokkrar stöðvar og fjölbreytt verkefni eru leyst. Sem dæmi má nefna, hnúta, kassabílarallý, stígvélakast, hæfileikakeppni og margt fleira.
Við viljum sjá sem flesta unglinga í deildinni á komandi árum því þetta er mjög mikilvægt og skemmtilegt starf.

Helga Kristey Ásgeirsdóttir og Nína Ingibjörg Einarsdóttir