Unglingadeild Björgunarfélags Hornafjarðar

0
630

Innan Björgunarfélags Hornafjarðar starfar Unglingadeildin Brandur og hefur gert það með misjafnlega löngum hléum í fjöldamörg ár. Unglingadeildin var síðast endurvakin árið 2014 og hefur starfað óslitið síðan. Í starfi unglingadeilda fá unglingarnir kynningu og innsýn á starf björgunarsveita og er góður grunnur að áframhaldandi starfi með björgunarsveitum, öðrum viðbragðsaðilum, eða fyrir framtíðina.
Meðal þess sem farið er yfir í starfi unglingadeildarinnar er; Fyrsta hjálp, rötun, farið yfir búnað og klæðnað til útivistar, fjallamennsku, sig, snjóflóðabúnað, slöngubáta og gönguferðir. Einnig er farið í allskonar leiki til að brjóta upp starfið og þétta hópinn. Sökum Covid-19 faraldurs hefur félagsstarfið legið í smá dvala og náðum við ekki að byrja starfið fyrr en núna eftir áramót. Starfið fer vel af stað og mættu 25 unglingar úr 9. og 10. bekk og fyrsta ári í framhaldsskóla á kynningarfundinn, en að jafnaði mæta milli 15-20 á fundi og er framtíðin því björt. Í ár eru 4-6 umsjónarmenn, sem allir eru virkir í starfi björgunarfélagsins, að halda utan um unglingastarfið svo koma aðrir félagar í björgunarfélaginu og aðstoða þegar þess er þörf. Öll þessi vinna að sjá um unglingastarfið er unnin í sjálfboðavinnu eins og allt starf björgunarfélagsins.
Annað hvert ár eru haldin landsmót unglingadeilda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, en þar koma unglingadeildir af öllu landinu og eyða langri helgi saman. Unglingunum er blandað saman í hópa og vinna svo þeir hópar saman í verkefnum fyrstu tvo dagana til að kynnast og svo eru björgunarleikar(keppni) milli hópa síðasta daginn. Á undaförnum landsmótum hafa verið að koma á bilinu 180 – 220 unglingar og þeim fylgja í kringum 70-80 umsjónarmenn. Næsta landsmót á að vera á þessu ári og verður það haldið hér á Hornafirði dagana 9.-13. júní. Það fylgir því mikið vinna að halda svona landsmót því það þarf tjaldsvæði og klósettaðstöðu fyrir hópinn, líka þarf að komast í sturtu/sund, einnig þarf hópurinn að borða heitan og góðan hádegis og kvöldmat til að hafa orku alla þessa daga. Eigum við því líklega eftir að leita til veitingastaða og fyrirtækja þegar nær dregur til að aðstoða okkur við þetta stóra verkefni. Að sjálfsögðu fer þetta allt eftir stöðu Covid-19 hvort hægt verði að halda mótið, en að sjálfsögðu vonum við það besta.