Þrettándahlaup fjölskyldunnar

0
1559
Stefán Viðar var fyrstur í mark í 9 km, hér er hann ásamt sinni fjölskyldu en þau fengu líka búningaverðlaun, samheldin hlaupafjölskylda. Theódór, Helga, Kristófer og Stefán.
Þorbjörg og Ívar Örn fengu verðlaun fyrir bestu búningana.
Þorbjörg og Ívar Örn fengu verðlaun fyrir bestu búningana.

Frjálsíþróttadeild Sindra stóð fyrir Þrettándahlaupi fjölskyldunnar þann 6. janúar síðastliðinn og er skemmst frá því að segja að þessi viðburður heppnaðist gífurlega vel. Upphaflega átti þetta að vera Gamlárshlaup fjölskyldunnar en þar sem veðurguðirnir voru ekki okkur í hag þá var hlaupið fært fram á Þrettándann. Það er von okkar að þetta verði árlegur viðburður þar sem fjölskyldur geta átt glaðan dag saman. Það voru 53 þátttakendur og þrjár mismunandi vegalengdir í boði, 3 km. 6 km og 9km. Langflestir fóru 3 kílómetra og er hugsunin að þetta sé fyrir alla og fólk fer á sínum hraða. Það var Anna Lára Grétarsdóttir sem var fyrst í mark í 3 kílómetra hlaupinu, Tómas Nói Hauksson var fyrstur í 6 kílómetra hlaupinu og Stefán Viðar Sigtryggson var fyrstur til að klára 9 kílómetrana, Inga Kristín Aðalsteinsdóttir var önnur í mark og Tómas Orri Hjálmarsson var þriðji.
Fólk var hvatt til að mæta í búningum og vakti það mikla lukku og setti svip sinn á hlaupið. Verðlaun voru einnig veitt fyrir besta búninginn og voru það Þorbjörg Gunnarsdóttir og Ívar Örn Jónsson sem hlutu þau verðlaun.
Verðlaunin voru ekki af verri toganum, kajakferð með Iceguide, íshellaferð með Glacier Adventure, pizzaveislur frá Hótelinu og jólaglaðningur frá Nettó. Eftir hlaupið var öllum þátttakendum boðið í kjötsúpu á Kaffi Horninu í boði Jóhönnu og Ernesto. Sveitarfélagið bauð öllum frítt í sund og viljum við þakka öllum fyrirtækjum veittan stuðning.Við þökkum kærlega fyrir þátttökuna og skemmtilegan dag og sjáumst svo enn fleiri að ári.

Anna Björg Kristjánsdóttir og
Berglind Steinþórsdóttir