Þrettándagleði Menningarmiðstöðvarinnar

0
619
Kvennakór Hornafjarðar ásamt Kertasníki. Mynd: Tim Junge

Aðventan reyndist heldur óhefðbundin og samkomur bæði fámennar og sjaldgæfar á árinu sem var að líða en þessar takmarkanir fólu einnig í sér lærdóm um hvernig má vera saman og gera skemmtilegt án þess að hittast. Menningarmiðstöðin blés til Þrettándagleði í bókasafninu og streymdi á netinu þar sem hátíðarnar voru kvaddar með svolítilli viðhöfn.
Dregnir voru út þrír vinningshafar sem sent höfðu inn réttar lausnir í ratleiknum en það voru Áskell Vigfússon, Friðrik Jarl Bragason og Kristjón E. Elvarsson. Ánægjulegt var að sjá hversu margir tóku þátt í ratleiknum og hversu fallega listaverkin settu svip sinn á bæinn. Menningarmiðstöðin vill nota tækifærið og þakka aftur Selmu Ýr Ívarsdóttur, Daníel Snæ Garðarssyni og Sögu Skrýmisdóttur fyrir þeirra óeigingjarna framlag til samfélagsins og að gleðja okkur öll með verkum sínum í svartasta skammdeginu.
Á Þrettándagleðinni heiðraði Kvennakór Hornafjarðar gesti með þróttmiklum söng undir stjórn Heiðars Sigurðssonar. Þá komu feðginin Amylee og Luiz da Silva og fluttu portúgalskt lag og ljóð. Öllum að óvörum kíkti Kertasníkir við á leið sinni til fjalla og fór með gamanmál, stýrði samsöng og aðstoðaði við útdráttinn. Menningarmiðstöðin þakkar öllum sínum góðu gestum og áhorfendum fyrir fjörlega samveru!