Þakklæti efst í huga

0
237

Ég hef átt langa samleið með því öfluga fólki sem starfar innan Björgunarfélags Hornafjarðar og Slysavarnadeildarinnar Framtíðar. Í því samstarfi hef ég notið þeirrar gæfu að hafa aðgang að einstaklingum sem búa yfir mikilli þekkingu á mörgum sviðum, og mannauð sem samfélagið okkar getur sömuleiðis verið stolt af.
Verkin sem koma til í þessu starfi eru af margvíslegum toga, sum skemmtileg og því miður stundum erfið og krefjandi. Grundvöllur fyrir starfi viðbragðsaðila helgast af hugsjón. Þar liggur sterkasta aflið. Fólk úr öllum áttum kemur saman til aðstoðar við samfélag sitt og gesti þess, til að tryggja öryggi og finna farsæla lausn á verkefnum sem koma til. Ákveðin sérhæfing hefur orðið til á mörgum sviðum í þessu öfluga starfi og tækjabúnaður og húsnæði því mjög mikilvægur hlekkur í keðjunni.
Fjölmargir eiga þessum einingum margt að þakka og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hve vel hefur verið tekið á móti verkefninu „Í þágu samfélagsins” sem lýtur að byggingu nýrrar Björgunarmiðstöðvar. Er það þakkarvert. Verkefnið er stórt, en sterk framtíðarsýn eininga og rausnarleg framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum hafa gert það kleift.
Þar er einnig möguleiki fyrir samfélagið að taka þátt í að byggja upp til framtíðar áframhaldandi öflugt starf eininga og von til þess að unnt sé að klára verkefnið án þess að veikja viðbragðsgetu félaganna.
En efst í huga mér er þakklæti. Ekki síst til þeirra sem á undan fóru og sýndu fádæma fyrirhyggju og voru góðar fyrirmyndir. Fyrir frábært samstarf og aðgang að óteljandi einstaklingum sem stökkva til í alls kyns útköll, við alls kyns aðstæður, hvort sem er til að opna fjöldahjálparstöðvar, loka vegum eða sinna forvörnum á öllum sviðum. Einnig fyrir sérhæfða þekkingu, í leik og starfi, og stuðning í gegnum tíðina. Fyrir það er ég þakklátur og hefði ekki viljað vera án.

Kveðja,
Jón Garðar Bjarnason