Sýningin Óværa eða ábati í Svavarssafni

0
891

Sýningin Óværa eða ábati, sem er í fremra rými Svavarssafns sem átti að ljúka þann 6. janúar hefur nú verið framlengd til 14. febrúar. Á sýningunni má sjá verk eftir Efnasmiðjuna sem samanstendur af þeim Elínu Sigríði Harðardóttur sem er fædd og uppalin á Höfn og Ingu Kristínu Guðlaugsdóttur.
Sýningin er angi af verkefni þeirra Lúpínan í nýju ljósi sem átti upptök sín í Listaháskólanum þar sem Inga hóf að gera tilraunir með notkun lúpínu sem hráefnis.
Þær hafa haldið áfram með þessar tilraunir og þá aðallega einbeitt sér að því að athuga möguleika hennar sem hráefni í umhverfisvænt trefjaefni sem gæti nýst sem byggingarefni.
Verkefnið fékk Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2018.
Á sýningunni velta þær fyrir sér plöntunni í samfélagslegu samhengi. Hún hefur verið notuð til uppgræðslu á örfoka landi frá því á síðustu öld, en varð öflugri en búist var við. Á seinni árum hefur hún verið flokkuð sem ágeng tegund og því gerð að óværu í íslensku landslagi. Andstæðingar hennar kjósa jafnvel auðn yfir lúpínubreiðurnar sem slá lit sínum á landið. Þær horfa einnig á sauðkindina sem umdeilda- sumir telja hana valda gróðureyðingu og uppfoki á hálendinu á meðan aðrir telja hana nauðsynlega til að viðhalda beit og næra jarðveginn.
Á sýningunni einblína þær á þessar tvær tegundir í landslagi Íslands, lúpínuna og sauðkindina og leiða þær saman í myndverkum. Tegundir sem áður töldust ábati eru nú í hugum margra álitnar óværa.
Eystrahorn hvetur Hornfirðinga til að kíkja á sýninguna.