Sýning sem nær til allra

0
143

Leikfélag Hornafjarðar hefur verið starfandi í 60 ár og skemmt Hornfirðingum með fjölda leiksýninga. Þar kemur að fólk úr öllum áttum sem sökkvir sér í heim ævintýra og skapar hvert listaverkið af fætur öðru. Leiksýningin í ár er engin undantekning. Sýningin Galdrakarlinn í Oz var frumsýnd 24.mars fyrir fullu húsi og góðum undirtektum. Leikritið er byggt á skáldsögu bandaríska barnabókahöfundarins L. Frank Baum sem kom út árið 1900. Vinsæl kvikmynd var gerð eftir sögunni 1939 og var það fyrsta talkvikmyndin í lit sem gerð var í Hollywood. Tónlistin sem samin var fyrir kvikmyndina hefur lifað vel allt fram á okkar daga, enda eru þar á ferðinni perlur á borð við Somewhere over the rainbow og We are off the see the wizard. Leikritið fjallar um stelpuna Dóróteu (Karen Hulda) sem lendir í hvirfilbyl, fýkur upp í háloftin og lendir í landinu Oz. Þar kynnist hún heilalausri fuglahræðu (Andri Þór), hjartalausum pjáturkarli (Axel Elí)og ljóni (Laufey Ósk) sem þjáist af skorti á hugrekki. Saman halda þau fjögur í ferðalag í þeim tilgangi að biðja galdrakarlinn í Oz (Tómas Nói) um að útvega það sem þau skortir og hjálpa Dóróteu að finna leiðina heim aftur. Á ferðalaginu þurfa þau að glíma við ýmsar áskoranir, ekki síst vondu Vestannornina (Sigríður Þórunn) sem ásælist töfraskóna hennar Dóruteu sem góða Norðannornin (Birna Jódís) gaf henni og eiga að vísa henni veginn. Við áskoranirnar sem mæta þeim kemur í ljós að í raun skortir þau ekki heila, hjarta og hugrekki og Dórótea uppgötvar að hún getur sjálf fundið leiðina heim. Markmið leikfélagsins var að setja á svið sýningu fyrir alla aldurshópa, börn jafnt sem fullorðna, og það hefur svo sannarlega tekist. Að sýningunni koma leikarar á öllum aldri og börnin standa sig öll með mestu prýði. Tónlist og dans gæðir leiksýninguna lífi og er hvoru tveggja leikurunum öllum til mikils sóma. Einfaldur og fallegur boðskapurinn ætti að ná til allra áhorfenda. Uppsetning Leikfélags Hornafjarðar á Galdrakarlinum í Oz er sérlega vel heppnuð og samstarfið við leikstjórann Völu Höskuldsdóttur og við framhaldsskóla Austur-Skaftafellsýslu hefur tekist frábærlega. Þetta er ævintýralega góð fjölskylduskemmtun sem enginn ætti að missa af.

Soffía Auður Birgisdóttir