Stuðningur við Ægi Þór

0
1553

Undanfarið hafa Hornfirðingar þjappað sér rækilega saman utan um hann Ægi og lagt okkur lið í baráttunni um að geta keypt lyf sem gæti breytt öllu um framtíðarhorfur hans. Eins og sagt var við mig um daginn þá á ég hann ekki ein heldur allt samfélagið á Höfn og það er svo sannarlega satt því allir vilja hjálpa honum eins og þeir geta. Þegar erfiðleikar steðja að hjá einhverjum viljum við auðvitað öll láta gott af okkur leiða en þegar maður lendir í þessu sjálfur verður maður bara auðmjúkur og orðlaus. Börnin hér á Höfn hafa aldeilis lagt sitt á vogarskálarnar og það eru ófá skiptin þar sem þau hafa komið heim til okkar að afhenda pening sem þau hafa safnað fyrir Ægi. Sindradagurinn sem haldinn var til styrktar Ægi var ógleymanlegur og einnig nýafstaðin Humarhátíð, þar sem græni liturinn, sem er alþjóðlegi Duchenne liturinn, var áberandi. Allur sá hlýhugur og samkennd sem okkur hefur verið sýnd er ótrúleg og við munum aldrei geta fullþakkað fyrir það allt. Að búa í svona kærleiksríku samfélagi er yndislegt og það gefur okkur styrk og trú að halda baráttunni áfram. Það er svo mikið af litlum fallegum sögum í kringum þetta allt að það er næstum efni í heila bók. Við fjölskyldan erum óendanlega þakklát yfir því hvað Hornfirðingar og aðrir hafa reynst okkur vel. Á Höfn er hjartahlýtt fólk og gott að búa og margt smátt gerir sannarlega eitt stórt.

Fyrir áhugasama þá erum við með fésbókarsíðu sem heitir Stuðningur fyrir Ægi Þór.

Kærleikskveðjur
Hulda Björk

Fyrir þá sem vilja leggja söfnuninni lið þá er styrktarreikningur Ægis Þórs:
0172-15-380001
kt: 061273-4849