Stórt ár framundan

0
603

Grétar Örvarsson tónlistarmaður er Hornfirðingur í húð og hár. Hann fæddist á Þinghóli, heimili afa hans, Karls Unnars Magnússonar, sem var innabúðarmaður í járnvörudeild Kaupfélagsins alla sína starfsævi og ömmu, Signýjar Gunnarsdóttur. Amma Grétars tók sjálf á móti honum, en á þessum tíma var hún ljósmóðir sýslunnar. Grétar ólst þar af leiðandi upp við að sængurkonur dveldu á heimilinu og urðu allir heimilismenn að sýna ítrustu tillitssemi og nærgætni þegar barnsfæðingar stóðu yfir.

„Mér leið afskaplega vel á hólnum hjá afa og ömmu sem bjuggu á efri hæð Þinghóls“, segir Grétar. „ Á neðri hæðinni bjuggu Ásgeir ömmubróðir minn og Mæja  kona hans ásamt börnum sínum Gunnari, Ingvaldi og Ástu. Á þessum tíma var Hornafjörður einn risastór leikvöllur fyrir okkur krakkana, sandeyrin, bryggjan, Óslandið, Leiðarhöfðinn, sundlaugin og fótboltavöllurinn. Ekki má gleyma bíóinu hjá Ragga Björns í Sindrabæ, enda sást lítið í sjónvarpinu vegna slæmra skilyrða! Þetta var dásamlegur tími.”

Spurður út í tónlistarferilinn segir Grétar: „Pabbi var mér mikil fyrirmynd og fetaði ég ungur í spor hans. Ég byrjaði að spila á Hótel Höfn 15 ára gamall og í framhaldi af því spilaði ég með hljómsveitunum Ringulreið og Tilbreytingu, aðallega í Sindrabæ. Þá voru böllin vel sótt nánast hverja helgi enda fjöldi aðkomufólks við vinnu á Höfn yfir vertíðartímann og eins yfir sumartímann. Þá var líka nóg að gera í humrinum og bærinn að byggjast upp.“ Grétar flutti til Reykjavíkur um tvítugt en hafði áður verið einn vetur í tónlistarnámi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hann segir ræturnar sterkar og að sér þyki alltaf jafn vænt um heimabæ sinn.

Grétar er með mörg járn í eldinum. Á þessu ári fagnar Stjórnin, hljómsveitin sem hann stofnaði upp úr Hljómsveit Grétars Örvarssonar, 35 ára afmæli. „Af því tilefni verða stórtónleikar í Háskólabíói 30. september auk þess sem Stjórnin mun spila á landsbyggðinni í sumar”, segir Grétar. Þá standa fyrir dyrum tónleikar bæði í Salnum í Kópavogi og í Hofi á Akureyri undir heitinu Sunnanvindur, eftirlætislög Íslendinga. „Þessir tónleikar urðu til upp úr tónleikum sem ég hélt til heiðurs og til minningar um föður minn, Örvar Kristjánsson harmónikkuleikara. Pabbi var einn af ástsælustu harmónikkuleikurum þjóðarinnar og spannaði tónlistarferill hans rúm sextíu ár. Hann gaf út 13 hljómplötur á sínum ferli og nutu mörg laga hans mikilla vinsælda.“

Grétar hefur minnst föður síns með veglegum hætti á síðustu tveimur árum. Minningartónleikarnir Sunnanvindur, eftirlætislög Örvars Kristjánssonar urðu að fernum tónleikum og seldist upp á þá alla. Þá framleiddi Grétar sjónvarpsþátt um líf og tónlistarferil föður síns, sem sýndur var á RÚV á sjómannadaginn í fyrra og eins gaf hann út nótnabók með lögum Örvars. Spurður út í fyrirhugaða tónleika í Salnum 14. apríl og í Hofi 15. apríl svarar Grétar: „Þessir tónleikar verða með öðru sniði en hinir fyrri þó að nafnið sé óbreytt. Í þetta sinn verða flutt eftirlætislög Íslendinga, sígildar dægurlagaperlur sem hafa flust á milli kynslóða. Nefna má lög eins og „Góða ferð“,  „Ég er kominn heim“, „Segðu ekki nei“, „Litla sæta ljúfan góða“, „Því ertu svona uppstökk“, „Vegir liggja til allra átta“, „Ást“, „Það er bara þú“ og „Láttu mjúkra lokka flóð“. Þá verða jafnframt flutt nokkur af vinsælustu lögum pabba. Úrvalshópur tónlistarfólks verður með Grétari á sviðinu. Söngvarar auk Grétars verða þau Ragnheiður Gröndal og Karl Örvarsson bróðir hans. Hljómsveitina skipa Þórir Úlfarsson píanóleikari, Pétur Valgarð Pétursson gítarleikari, Haukur Gröndal saxófónleikari, Eiður Arnarsson bassaleikari og Sigfús Óttarssoni trommuleikari. Þá leikur Ásta Soffía Þorgeirsdóttir á harmónikku.

„Þetta eru tónleikar fyrir alla þá sem hafa yndi af íslenskum dægurlagaperlum og eins unnendur harmónikkutónlistar“, segir Grétar að lokum.