Stofnun fjölmenningarráðs

0
550
Frá vinstri: Goran Basrak (varaformaður), Elínborg Rabanes (varamaður), Matsupha Brynjulfsson (aðalmaður), Bartosz Krzysztof Skrzypkowski (aðalmaður), Hildur Ýr Ómarsdóttir (starfsmaður ráðsins), Nejra Mesetovic (formaður), Claudia Maria Hildeblom (varamaður), Ann Marie-Louise S Johansson (aðalmaður)

Þriðjudaginn 12. október komu fulltrúar fjölmenningarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar saman og funduðu í fyrsta skipti. Fjölmenningarráð starfar undir velferðarnefnd sveitarfélagsins líkt og öldungaráð og er skipað íbúum af erlendum uppruna. Megin hlutverk ráðsins er að móta fjölmenningarstefnu, koma málefnum og skoðunum innflytjenda á framfæri, skapa vettvang til samskipta og stuðla að opnu samfélagi sem skapar pláss fyrir fjölbreytni. Ráðið hefur einnig það hlutverk að vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum sveitarfélagsins til ráðgjafar í málefnum sem snúa að málaflokknum.
Í Sveitarfélaginu Hornafirði búa 550 erlendir ríkisborgarar frá yfir 40 löndum. Einstaklingarnir eru á öllum aldri, með fjölbreyttan bakgrunn, menntun og reynslu. Hornfirskt samfélag hefur á undanförnum árum þróast í átt að fjölbreyttara mannlífi, og mikilvægt að raddir fólks úr ólíkum áttum fái að heyrast. Þrátt fyrir að hópurinn sé sannarlega fjölbreyttur og hafi ólíkar þarfir og skoðanir þá eiga flestir það sammerkt að vilja fá tækifæri til að tilheyra, taka þátt í samfélaginu, mynda tengsl og vera sjálfbjarga samfélagsþegnar. Að taka á móti fólki með víðsýni og virðingu stuðlar að gagnkvæmri aðlögun og dregur úr fordómum og útilokun. Það er afar dýrmætt fyrir sveitarfélagið að nýta mannauðinn sem býr í íbúum af erlendum uppruna og megum við vera stolt af því að vera eitt af fáum sveitarfélögum á landinu sem tekið hefur ákvörðun um að láta raddir fólksins heyrast með formlegum hætti.