Stjörnuskoðun í Hornafirði

0
1460
Riddaraþokan í stjörnumerkinu Óríon er dimm geimþoka sem ber í víðáttumikla rauðleita ljómþoku. Þessar ljómþokur eru of daufar til þess að sjást með berum augum eða í sjónauka en drættir þokunnar koma fram á ljósmyndum. Myndin var tekin með linsusjónauka og lýst í gegnum sérhannaðar litsíur og síðar litgreind. Fyrir vikið birtast form ljómþokunnar. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Snævarr Guðmundsson er mikill áhugamaður um himingeiminn og hefur fengist við ljósmyndun á stjörnufyrirbærum í sínum frítíma. Eystrahorn spurði Snævarr nánar út í þetta áhugamál hans.

Snævarr Guðmundsson

Segðu okkur aðeins um hver þú ert og hvaðan þú kemur?
Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Get þó rakið ættir á suðausturland og hef til mikillar ánægju kynnst fólki hér sem ég á skyldleika með.
Hvernig kom það til að þú fluttir í Hornafjörð?
Ég sótti um stöðu þegar Náttúrustofa Suðausturlands hóf starfsemi á Höfn árið 2013 og var ráðinn til hennar, ásamt Kristínu Hermannsdóttur, sem er forstöðumaður stofunnar. Ég flutti hingað í júní sama ár en valdi að búa í Nesjum enda meira myrkur þar en á Höfn en það hentar mér einstaklega vel. Þar bý ég ásamt Sigríði G. Björgvinsdóttur, landfræðingi sem starfar við minjaskráningu innan rannsóknasviðs hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar.
Hver er bakgrunnur þinn og hvað gerir þú hér á Höfn?
Í grunninn er ég fjallaklifrari og hef frá táningsaldri stundað fjallamennsku, þá sérstaklega klifur. Hef próf sem fjallaleiðsögumaður og var í fyrsta hópnum sem leiðsögumannaskólinn útskrifaði, árið 1985. Hef þó heldur hægt á eftir því sem árunum fjölgar og farið að horfa á náttúruna út frá fleiri sjónarhornum. Er líka með sveinspróf í dúklögnum og starfaði lengi við það en ákvað síðan á miðjum aldri að fara í háskólanám og læra fræði sem hugur hafði lengur dreymt um. Það er einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið. Núna er ég náttúrulandfræðingur (BS gráða) og með M.Sc. gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands. Meistaraverkefnið var gerð landlíkans af Breiðamerkurjökli eins og hann var í lok 19. aldar, en þá var jökullinn miklu þykkari og stærri en nú er og náði næstum til sjávar. Með því að bera saman landlíkanið við núverandi stærð var hægt að áætla rúmmálsbreytingar jökulsins yfir 120 ára skeið og hve mikill ís er horfinn. Nú sinni ég jöklarannsóknum hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Eftir að vinnudegi lýkur á skrifstofunni liggur leiðin heim þar sem ég sinni mælingum og rannsóknum á stjörnum.
Hvenær og hvernig byrjaði áhugi þinn á himingeimnum?
Áhuginn kviknaði sumarið 1988. Ég kom seint ofan af fjalli í frönsku ölpunum eftir erfitt klifur ásamt tveim klifurfélögum mínum en við reiknuðum með að fá að gista í fjallaskála, sem er undir fjallinu, í 3000 m hæð. En skálinn var fullbókaður og við neyddumst til að liggja utan við hann fram á miðja nótt. Þegar dimma tók birtist þvílík stjörnumergð að ég varð orðlaus og djúpt snortin. Slíkan fjölda stjarna er ekki hægt að sjá frá sjávarmáli, jafnvel þó raflýsing sé ekki til staðar. Svo mikil var stjörnumergðin að bjartar stjörnur sem eru uppistaðan í þeim mynstrum sem menn nefna stjörnumerkin týndust í Vetrarbrautinni. Af og til lýstust rákir fallandi loftsteina. Hef ekki upplifað jafn sterka en samtímis heillandi sýn, og undir stjörnuhimninum gnæfðu snarbrattir alpatindar. Þessa nótt rann upp í huga að þekkingarleysi mitt á alheiminum var algert. Við það gat ég ekki unað og sökkti mér í þessi fræði til úrbóta eftir að til Íslands kom. Þar með var ekki aftur snúið.
Nú ert þú búin að koma þér upp góðri aðstöðu til stjörnuskoðunar, getur þú sagt okkur frá henni, allt frá því hugmyndin kviknaði og fram til dagsins í dag?
Það er viðurkennd staðreynd í samfélagi stjörnufræðinga og stjörnuáhugamanna að til þess að árangur verði af starfseminni er föst aðstaða grundvallaratriði. Fæstir stjörnuáhugamenn ganga þó svo langt að reisa sér einkaaðstöðu heldur sameinast í stjörnuskoðunarfélögum og samnýta tæki. Gallinn er hins vegar að þegar margir eru um einn sjónauka er tími hvers og eins afar takmarkaður. Til þess að ná árangri, í þessu sem öðru, þarf tíma – mikinn tíma. Það þarf að kafa undir yfirborðið til dýpri skilnings og að læra af eigin mistökum. Klifrið kenndi mér þessa afstöðu og í mínum huga var aldrei spurning um annað en að reisa eigin aðstöðu. Á Íslandi eru veðurskilyrði einnig þess eðlis að ráðlegast er að hafa aðstöðuna innan seilingar til þess að fá nægan tíma. Þegar ég bjó á höfuðborgarsvæðinu reisti ég mína fyrstu aðstöðu til stjörnuathugana, úti í garði, með góðum árangri. Þegar austur á Hornafjörð kom stóð ekkert annað til. Fyrst fékk ég aðstöðu við Ægissíðu með góðum stuðningi sveitarfélagsins, og sem ég er afar þakklátur fyrir, en þegar nýr stærri sjónauki var tekinn í gagnið var húsið of lítið. Reisti ég nýtt stjörnuhús í bakgarðinum til þess að sem styttst væri að fara þegar stjörnurnar láta sjá sig. Þangað er einungis nokkra metra að fara frá heimilinu, sem er talsvert þægilegra en að aka 12 km fram og tilbaka í gömlu aðstöðuna, í hvert sinn. Það var kostnaðarsamt að koma sjónaukanum til landsins en Skinney-Þinganes og Kiwanisklúbburinn Ós hlupu undir bagga og studdu verkið. Ég er þeim ákaflega þakklátur fyrir.
Nú hefur þú haldið sýningu á myndum af stjörnuþokum og ýmsum fyrirbærum úr geimnum, getur þú útskýrt fyrir okkur hvert ferlið er við að taka slíka mynd?
Stjörnuljósmyndun er mikil þolinmæðisvinna sem krefst einnig skilnings á ljósmyndun, þekkingu á tækjunum sem eru notuð og á stjörnuhimninum auðvitað. Þær myndir sem voru á sýningunni sem þú vitnar til, byggjast venjulega á löngum myndatökum því það þarf að safna ljósi daufra geimþoka og síðan úrvinnslu, eins og t.d. litgreiningu og samsetningu. Það er of langt mál að útskýra það til fullnustu hér, en að baki hverri mynd liggja 12 til 24 klukkustundir í myndatökum og örugglega miklu meiri tími í úrvinnslunni. Þegar þessu er hins vegar lokið og ef vel tekst til er ánægjan yfir unnu verki fölskvalaus og fyrirhöfnin hverrar stundar virði.
Hvernig nýtir þú myndirnar, nýtir þú þetta í einhverskonar vísindalegum tilgangi, eða eru þær fyrst og fremst til yndisauka?
Myndirnar sem voru á sýningunni hef ég ekki notað til vísindalegra rannsókna ennþá, heldur til þess að kynna fólki heim sem er annars ósýnilegur, ef ekki væru til ljósnæmar myndavélar. Að frátalinni fegurð geimþokanna upplýsa myndirnar um hve lítinn hluta alheimsins augu okkar fá greint og hvað við vitum óskaplega lítið. Bandaríski stjörnufræðingurinn Robert Aitken sagði eitt sinn að stjörnurnar kenndu okkur margt, m.a. að vera hógvær á eigin þekkingu. Svo að slíkar myndir örva frekar listræna sýn eða heimspekilega orðræðu. Myndir sem ég nota hins vegar í vísindalegum rannsóknum eru annars eðlis, þær eru yfirleitt aldrei jafn fallegar. Í þeim tilfellum er verið að snara ljósi stjarnanna í myndunum yfir í tölugildi og lesa úr þeim allt aðrar upplýsingar.
Hvaða upplýsingar eru það?
Um framandi stjarnfyrirbæri og fjarlæg sólkerfi. Stjörnur eru sólir en af misjafnri stærð og birtu. Fjöldi sólstjarna er bundin í svonefndum tvístirnakerfum, þ.e. tvær stjörnur sem snúast um sameiginlega þyngdarmiðju. Sumar stjörnurnar eru svo nærri hvor annarri að þær snertast og mynda stundum óstöðug kerfi. Til þess að skilja eðli þessara kerfa og þróun í framtíðinni þarf að safna upplýsingum um þau og það gerir fólk víðsvegar um heim, sem er að fást við það sama og ég. Upplýsingunum er safnað í gagnagrunna og ná gögn yfir sumar stjörnur marga áratugi aftur eða jafnvel aldir. Hver myndi trúa því?
Síðan afla ég gagna um fjarreikistjörnur en það eru reikistjörnur sem hringsóla um fjarlægar sólstjörnur. Þær fengust fyrst staðfestar á síðasta áratug 20. aldar og eru eitt byltingarkenndasta skrefið í leit að svari við spurningunni; „er líf annars staðar að finna en á jörðinni?“. Spurninguna; „eru reikistjörnur á braut um fleiri sólstjörnur en sólina okkar“, má rekja til ítalska heimspekingsins Giordano Bruno. Hann ljáði spurningunni máls í heimalandi sínu en galt fyrir það líf sitt og var brenndur á báli árið 1600. Spurningin samrýmdist ekki kreddum trúarstofnanna þess tíma. Um afar vandasamar mælingar er að ræða og þær verða vart gerðar öðruvísi en frá fastri aðstöðu. Ég afla gagna um þvergöngur þeirra, það er þegar þær ganga fram fyrir móðurstjörnu sína. Þá deyfist ljós sólstjörnunnar lítillega en er þó mælanlegt. Úr slíkum upplýsingum er hægt að fá svör við hvort að viðkomandi reikistjarna hafi lofthjúp eða hvort aðrar óséðar reikistjörnur hafi áhrif á kerfið. Þú ættir að geta þess að M. Mayor og D. Queloz fengu Nóbels-verðlaun í eðlisfræði 2019 fyrir að uppgötva fyrstu fjarreikistjörnurnar með þessari aðferð. Í Hornafirði er eina stjörnustöðin á Íslandi sem gerir þetta. Hornafjörður er því á heimskortinu yfir stjörnustöðvar sem afla gagna um reikistjörnur í fjarlægum sólkerfum.
Er eitthvað fleira sem þú vilt deila með lesendum?
„Nei, held að þetta dugi í bili …”segir Snævarr og hlær, „…en gleðileg jól.“