Starfsemi GHH sumarið 2022

0
662

Golfsamfélagið á Höfn er ört vaxandi og telur nú um 150 manns á öllum aldri. Við erum stolt af því að hafa undanfarin ár aukið barna- og unglingastarf til muna auk þess sem hlutfall kvenna í golfi hjá GHH er með besta móti. Golfið býður ekki aðeins upp á möguleika til útivistar, hreyfingar og keppni heldur er félagslegi þátturinn jafnframt gríðarlega stór partur af golfíþróttinni. Stærsta verkefni GHH í sumar verður án efa að vera gestgjafar á Íslandsmóti í 5. deild karla sem haldið verður á Silfurnesvelli í ágúst. Þá ætlar klúbburinn í fyrsta skipti í sögunni að senda kvennalið til leiks á Íslandsmót. Áfram verður haldið með öflugt barna- og unglingastarf. Verið er að setja upp fyrirkomulag kennslu fyrir börn og unglinga, en auk þess verða tvö barnamót haldin, svokölluð Gullmót GHH. Þá hefur unglingaflokki verið bætt við í tíu móta mótaröð Medial og Prósjoppunnar og er unglingum fæddum á árunum 2005 til 2009 boðið að taka þátt í því. Athygli er vakin á því að engin þátttökugjöld eru fyrir unglinga í mótaröðinni. Kynningarfundur vegna þátttöku unglinga í mótaröðinni verður haldinn 16. maí næstkomandi í golfskálanum kl. 17:00 og er fundurinn opinn öllum, jafnt unglingum, foreldrum sem og öðrum áhugasömum.
Vorfundur GHH verður síðan haldinn 16. maí kl. 20:00 í Golfskálanum og þar verður kynning á starfinu sem er framundan og þar er af nægu að taka. Auk þess verður kynnt félagspeysa GHH sumarið 2022.
Undanfarin ár hefur keppnistímabilið hafist með Snærisleik Góu, þar sem keppendur fá snæri í samræmi við forgjöf sína og geta nýtt snærið til að færa boltann til á vellinum gegn því að klippa jafn stóran hluta af snærinu og notaður var. Mótið verður haldið 21. maí og hefst kl. 10:00. Í verðlaun eru vinningar frá Sælgætisgerðinni Góu. Í maí fer mótaröðin jafnframt af stað en þar er um að ræða tíu mót sem kylfingar geta tekið þátt í og telja fimm bestu mótin til stiga. Þá fer undankeppni holukeppni GHH af stað í maí. Holukeppnin er styrktarmót þar sem keppendur greiða þátttökugjald og sigurvegari mótsins velur gott málefni sem fær að njóta góðs af vinningsfénu.
Á þriðjudögum yfir sumartímann hittast GHH konur og leika saman golf. Allar konur, og sérstaklega nýliðar, eru hjartanlega velkomnar í kvennagolfið hjá okkur. Reglulega er boðið upp á skemmtimót í kvennagolfinu og má þar sérstaklega nefna kjóla- og hattamótið sem hefur fest sig í sessi sem einn stærsti viðburður kvennagolfsins.
Ætlunin er að senda reglulegar fréttatilkynningar í Eystrahorn frá GHH í sumar þar sem fjölbreytt og skemmtilegt starf klúbbsins verður kynnt fyrir Hornfirðingum, auk þess sem fréttir af mótahaldi verða sagðar.
Við óskum Hornfirðingum gleðilegs golfsumars og vonumst til að sjá ykkur á golfvellinum, eða að minnsta kosti í golfskálanum að njóta góðra veitinga í sumar!

F.h. mótanefndar GHH
Jóna Benný Kristjánsdóttir