Stafafellskirkja – hið fegursta hús

0
1599

Í ár eru liðin 150 ár frá því að núverandi kirkja í Stafafelli var vígð. Áður var þar torfkirkja en Stefán Jónsson frá Hlíð segir svo frá; „Eftir kristnitökuna mun kirkja hafa verið sett á Stafafelli ekki löngu síðar. Kirkjan var helguð Maríu mey, því kölluð Maríukirkja. Fyrstu heimildir um kirkjuna eru frá 1201, þá syngur Guðmundur biskup góði messu þar 24. ágúst það ár.“
Í dag er kirkjan „Hið fegursta hús“ eins og segir í umsögnum en svo hefur ekki alltaf verið í tímans rás.
Nýja kirkjan var byggð á árunum 1866-1868. Forgöngu um kirkjubygginguna og umsjón með henni hafði séra Bjarni Sveinsson prestur á Stafafelli. Yfirsmiður eða forsmiður var Jón Jónsson snikkari og bóndi í Hólum.
Árið 1918 vísiteraði Jón Helgason biskup kirkjuna og sagði hana í góðri hirðingu en nefndi í leiðinni að til athugunar væri að byggja steinkirkju á staðnum en það var vilji safnaðarins að endurbyggja kirkjuna. Næstu ár var unnið að viðhaldi kirkjunnar og á fjölmennum og líflegum safnaðarfundi í júlí 1928 var niðurstaðan að viðgerð teldist lokið að því frátöldu að eftir væri að byggja turn á hana. Var samþykkt að gera það á næsta ári en turninn varð aldrei að veruleika.
Árið 1979 var farið að huga að viðgerðum á kirkjunni af alvöru;
„Úr varð að Hörður Ágústsson tók saman greinargerð og sagði fyrir um endurgerð kirkjunnar árið 1981. Þegar Pétur Sigurgeirsson biskup vísiteraði kirkjuna 9. júlí 1984 kom fram að skiptar skoðanir væru um hvort leggja ætti mikið fé í endurbyggingu gömlu kirkjunnar eða byggja nýja. Niðurstaðan var að fá álit sérfræðings um hvort það væri hægt að gera við kirkjuna og hvort slík viðgerð borgaði sig. Leitað var til tveggja manna sem mæltu með endurbyggingunni; Halldórs Sigurðssonar í Miðhúsum sem tók svo að sér umsjón með endurgerðinni og Árna Kjartanssonar arkitekts sem varð hönnuður endurbótanna. Þorsteinn Geirsson bóndi á Reyðará, oddviti og formaður sóknarnefndar beitti sér mjög fyrir endurbyggingu kirkjunnar.
Verkið var unnið sumarið 1988 þegar lokið var við endurbætur að utan og fram á haustið 1989 er unnið var að endurbótum að innan. Rétta þurfti húsið sem hallaði svolítið til suðurs, skipta um fótstykki allan hringinn og styrkja og lagfæra burðarvirki kirkjunnar. Kirkjunni var svo lyft um allt að 70 cm á meðan gerður var nýr grunnur undir hana. Gabbró var sótt að Hoffelli í Nesjum til þess að hlaða nýjan grunn. Gólf var tekið upp og gert við það og veggjaklæðningu.“ (Kirkjur Íslands, Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson)
Ekki eru margar byggingar frá nítjándu öld hér í sýslu sem þjóna upphaflega hlutverki sínu í dag. Það er þakkarvert og dýrmætt að Stafafellskirkja skuli hafa verið endurbyggð og verkið tekist jafnvel og raun ber vitni. Þar eiga margir hlut að máli og þakkir sem of langt mál er að telja upp í stuttri grein. Ítarlegri umfjöllun, sem séra Gunnar Stígur Reynisson hefur unnið, verður birt í næsta Skaftfellingi.
Full ástæða er til að minnast þessara tímamóta. Hátíðarmessa verður í Stafafellskirkju og samsæti í Mánagarði að lokinni messu sunnudaginn 26. ágúst nk. Nýr vígslubiskup séra Kristján Björnsson mun predika og fyrrverandi prestar munu koma í heimsókn.
Sóknarnefndin og prestarnir vilja hvetja fólk til að fagna þessum tímamótum með okkur. Sérstaklega ánægjulegt væri að sjá sóknarbörn sem sótt hafa athafnir og haft afnot af kirkjunni við ýmis tækifæri.

Albert Eymundsson formaður Sóknarnefndar Hafnarsóknar
Séra Gunnar Stígur Reynisson sóknarprestur
Séra María Rut Baldursdóttir prestur