Soffía Auður tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna

0
1606

Í síðustu viku var Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður á Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn, tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Orlandó – ævisaga eftir Virginiu Woolf.
Orlandó – ævisaga er í hópi merkustu skáldsagna Virginiu Woolf og sú skemmtilegasta að margra áliti. Í bókinni leikur höfundur að sér að ævisagnaforminu og þarf „ævisagnaritarinn“ að kljást við ýmis vandkvæði í tilraun sinni til að ná utan um æviferil sem teygir sig yfir meira en þrjár aldir og persónu sem breytist úr karlmanni í konu í miðri frásögn. Orlandó hefur verið kölluð „lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“ og þykir mjög nútímaleg, en verkið kom út 1928.
Um þýðingu Soffíu Auðar segir í rökstuðningi dómnefndar: „Það er mikill fengur að fá nú á íslensku skáldsöguna Orlandó, eitt af lykilverkum enskra bókmennta. Í verkinu kannar höfundurinn viðfangsefni sem koma við alla menn á öllum tímum, ástina, skáldskapinn, tímann og þroskann svo fátt eitt sé nefnt. Þýðing Soffíu Auðar er framúrskarandi vönduð og nostursamleg en jafnframt leikandi létt og fjörleg og hinn hispurslausi stíll höfundarins kemur vel fram í þýðingunni. Enn fremur ritar þýðandinn afar gagnlegan eftirmála og ítarlegar textaskýringar.“
Síðastliðinn sunnudag var Orlandó tekin fyrir í þættinum „Bók vikunnar“ á rás 1 og hægt er að hlusta á þáttinn á vefnum: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/bok-vikunnar/20171126