Snúningur í Gerðarsafni

0
356

Sýningin “Snúningur” var opnuð í Gerðarsafni fimmtudaginn 5. maí. Á sýningunni má sjá verk eftir Hönnu Dís Whitehead úr fjölbreyttum efnivið sem liggja einhverstaðar á milli hönnunar, handverks og listar.
Á sýningunni hefur hún tekið annan snúning á völdum verkum síðustu tíu ára eða frá því að hún útskrifaðist úr Hönnunarakademíunni í Eindhoven, Hollandi 2011. Þar má sjá áhugaverðan efnivið, lit, form og sögu blandað saman á nýjan hátt. Öll verkin eru framleidd á Hornafirði.
“Oftast þegar ég er að klára síðasta verkið fyrir sýningu dettur mér næsta hugmynd í hug, eða í samtali við gesti koma nýjar útfærslur upp í hugann. Á síðustu árum hef ég líka lært margt nýtt og þróað aðferðir sem gjörbreyttu sýn minni á fyrri verkefni. Það var því eitthvað spennandi við það að líta aðeins til baka.”
Ferlið leiðir Hönnu áfram eitt leiðir af öðru, ein hugmynd ýtir á þá næstu.
“Það er t.d framhald af einhverju frá því á síðasta ári en annað er hreinlega ný þróun á lokaverkefni mínu úr náminu fyrir tíu árum síðan. Þetta eru þessar hugmyndir sem maður stingur ofan í skúffu og ætlar alltaf að gefa sér tíma í”
Hún hefur gert tilraunir til að búa til húsgögn úr því sem áður var ílát, fléttað saman leir við textíl og furu og leyft mynstri ferðast á milli fleta, hluta og út í rýmið. Sum ferli fá tækifæri til að klárast en önnur taka flugið. Litríkar skúffuhugmyndir líta loksins dagsins ljós.
“Á meðan ég var að vinna sýninguna byrjuðu nýjar skúffuhugmyndir að streyma en nú greip ég þær strax, teiknaði upp og framkvæmdi”
Þar á meðal má sjá stól, veggteppi, hliðarborð, nýstárleg matarílát, stofuborð, blómavasa, ljós og lampa. Auk þess sem hún sýnir tilvísanir í þau eldri verk sem hún er að vinna áfram.
“Til að geta rætt við gesti og gangandi um ferlið og leyft þeim að sjá hvernig þetta þróaðist”
Sýningin stendur til 5. ágúst.