Slysavarnardeildin Framtíð

0
232

Að vera í Slysavarnafélaginu Framtíðinni færir manni skilning á orðatiltækinu að “maður er manns gaman”. Þetta má til sanns vegar færa þegar fjallað er um Slysavarnadeildina Framtíðina en þar er gaman að starfa. Markmiðið er helst slysavarnir og fjáraflanir, og oft mikil skemmtileg og gefandi vinna sem þarf að inna af hendi. Annað hvert ár eru haldin Landsmót slysavarnadeilda og þar er oft mikið fjör. Árið á móti halda kvennadeildir á Austurlandi svokallaðan Austfjarðahitting og gerir það mikið til að styrkja deildirnar og samvinnu á milli þeirra. Við höfum haft aðventukvöld fyrir jólin þar sem borðað er saman, skipst á pökkum og gert eitthvað skemmtilegt. Eins eru hannyrðakvöld (KÓSÝKVÖLD) og svo er oft gaman að hittast við önnur störf tengd fjáröflunum og félaginu sjálfu.
Mér er minnisstætt ferðalag þó nokkurra kvenna úr félaginu á Kvennaþing sem þá hét en búið er að breyta í Landsmót slysavarnadeilda. Slysavarnadeildin Dagbjört stóð fyrir þinginu í Keflavík fyrir nokkrum árum og var þemað stríðsárin og voru allir spenntir fyrir því. Farið var með rútu, sem bilaði svo að það var bara hægt að keyra afskaplega hægt. Við komumst samt á áfangastað eftir 10-12 tíma ferðalag og þrátt fyrir það voru allir hressir. Það voru fyrirlestrar og fræðsla strax morguninn eftir þar sem hægt var að kynnast mörgu nýju og gagnlegu. Það að hitta konur úr öðrum deildum í spjalli um starfið gefur alltaf góðar hugmyndir og alltaf hægt að læra eitthvað nýtt. Um kvöldið var heljarinnar skemmtun og ball. Þar voru deildirnar með þemað á hreinu og mátti sjá hermenn og dömur uppáklæddar í kjóla sem hefðu smellpassað á dansleik á stríðsárunum. Þar sem þingið var haldið á fyrrum varnarsvæðinu var dansleikurinn að sjálfsögðu í offiseraklúbbnum. Meðlimir í einni deildinni tóku þemað skrefi lengra en aðrir og var fornbílaklúbburinn fenginn til að skutla á ballið. Þetta var virkilega skemmtilegt og ævintýralegt kvöld. En strax morguninn eftir var aftur fræðsla og fyrirlestrar áður en haldið var heim á leið eftir eftirminnilega helgi.
Austfjarðahittingar eru líka afskaplega skemmtilegir og bara fáein ár síðan við í Framtíðinni héldum slíkan hitting. Við fengum til okkar fullt af konum úr deildunum fyrir austan og skemmtum okkur saman og lærðum nýja hluti.
Landsþing hjá Landsbjörg förum við á ásamt Björgunarfélagi Hornafjarðar annað hvert ár og er það mikill lærdómur sem fer þar fram í formi fræðslu og reynslu sem við deilum okkar á milli.
Margt er nú gert í Framtíðinni og stöndum við undir nafninu slysavarnafélag og hugðarefni okkar eru slysavarnir. Okkur er umhugað um að allir noti hjálma og höfum við verið að gefa hjálma til 5. bekkjar í Grunnskóla Hornafjarðar. Þá höfum við gefið hjartastuðtæki á marga staði hér á Hornafirði, endurskinsmerki og vesti í Grunnskóla Hornafjarðar, endurskinsvesti á leikskólann, fylgjumst við með öryggi barna í bílum fyrir utan leikskólann. Við erum líka á verði gagnvart slysahættum í okkar bæjarfélagi og látum vita til bæjarins ef eitthvað vekur hjá okkur grunsemdir um slysahættur og líka áberandi slysahættur.
Fjáraflanir eru mikilvægar í okkar starfi.
Sumardagurinn fyrsti er fastur í sessi hjá okkur með dekkuð hlaðborð af kökum og góðgæti. Við erum orðnar meistarar í candy-flossgerð og seljum það um sjómannahelgi, 17 júní og á Humarhátíð. Happdrættislínan í nóvember er orðin fastur liður hjá okkur og Hornfirðingum sem taka vel á móti okkur.

En eins og með mörg félög þessi síðustu ár hefur fækkað í okkar deild. Það er mikið að gera hjá öllum og félagsstörf kannski ekki forgangsatriði. En ég mæli með því að koma í félagið. Það er gefandi að vinna að samfélagslegum verkefnum og aðstoða þegar þarf. Eins er gaman að vinna í félagi við aðra og uppskera svo skemmtun fyrir góða vinnu. Slysavarnadeildin Framtíðin tekur inn nýja félaga á haust- og aðalfundi og öll eru velkomin. Mæli eindregið með því að taka þátt og koma á haustfund sem verður 13. október næstkomandi og verður auglýstur betur þegar nær dregur.

Fyrir hönd Slysavarnadeildarinnar
Framtíðar,
Fjóla Jóhannsdóttir, Formaður