Skiptiblómamarkaður

0
551

Þó það sé rigning úti þá er sól og sumar í hjörtum allra þeirra sem eiga leið á bókasafnið þessa vikuna. Bæjarbúar keppast við að gefa frá sér sín fegurstu blóm til þess að gleðja allt og alla. Markaðurinn virkar þannig að fólk kemur með plöntur, blóm og afleggjara og svo geta allir komið og nælt sér í eitthvað fallegt. Vonandi kviknar áhuginn á blómum hjá þeim sem eru ekki háðir nú þegar! Strax á fyrstu klukkutímunum komu heilu frumskógarnir í krukkum, dósum, pokum, skyrdollum og glösum, þannig að fólk er greinilega spennt fyrir þessu. Það er líka gaman að sjá að ýmsar matjurtaplöntur hafa dúkkað upp á bókasafninu, s.s. chili, tómatar, grasker o.fl.
Gróska stendur fyrir viðburðinum en Gróska er félag fyrir félagslandbúnað á Höfn. Markmiðið er að ýta undir ræktun í heimabyggð, jafnvel að byrja að rækta lífrænt grænmeti næsta vor og standa fyrir ýmsum fræðsluviðburðum og þá sérstaklega fyrir skólana. Eitt af markmiðum Grósku væri líka að hvetja fólk til að rækta sinn eigin mat en það er gaman að sjá að það eru greinilega margir í allskyns tilraunastarfsemi. Chili, tómatar, grasker og döðlur eru dæmi um plöntur sem hafa dúkkað upp á bókasafninu. Vonandi getum við ræktað eitthvað saman næsta sumar og lært hvert af öðru, það eru greinilega margir grænir fingur í bænum!