Sindrafréttir

0
3065

Víðir frá Garði kemur til Sindra

Sindramenn tóku á móti Víði frá Garði síðastliðið föstudagskvöld. Skemmst er frá því að segja að liðið fékk á sig 5 mörk annan leikinn í röð og var því ekki að spyrja að leikslokum. Sindramenn náðu hins vegar að skora 3 mörk og hefðu getað skorað fleiri því tækifærin vantaði ekki. Það var Nedo Eres sem sá um að skora fyrir Sindra að þessu sinni og skoraði hann tvö markanna úr víti og eitt með fínu skoti utan af velli en hann var valinn maður leiksins. Sindramenn sitja nú á botni deildarinnar en það er nóg eftir af tímabilinu og vonandi bjartari tímar framundan.

Samstarfssamningur við Nettó

Undanfarin ár eða allt frá því að Samkaup hófur hér verslunarrekstur hefur fyrirtækið og Nettó á Hornafirði styrkt UMF. Sindra á ýmsan hátt. Nýlega var endurnýjaður samningur sem gerir ráð fyrir góðum stuðningi áfram sem er mikilvægt fyrir félagið. Við það tækifæri lýstu aðilar yfir ánægju sinni með samstarfið sem hefur reynst farsælt og gott gegnum árin.

Samstarfssamningur við Olís

OlísUngmennafélagið Sindri og Olís hafa skrifað undir samstarfssamning til þriggja ára og var samningurinn undirritaður á kvennadaginn 19. júní sl. af Páli Róberti Matthíassyni frá Olís á Höfn og Ásgrími Ingólfssyni formanni umf. Sindra. Olís kemur til með að styrkja Sindra um veglega peningafjárhæð á hverju ári auk þess sem einstaklingar geta skráð ÓB-lykilinn sinn á umf. Sindra og þá fær félagið 2 kr. af hverjum seldum lítra. Félaginu er gríðarlega mikilvægt að fá svona veglegan stuðning og við getum gert enn betur með því að skrá ÓB-lykilinn á Sindra og styrkja þar með félagið okkar.