Pétur Gunnarsson og Soffía Auður Birgisdóttir ræða saman og lesa upp úr þýðingum sínum á sjálfsæviskrifum Jeans-Jacques Rousseau og Virginiu Woolf
Nýútkomnar eru þýðing Péturs Gunnarssonar á sjálfsævisögu franska höfundarins Jean-Jacques Rousseau og þýðing Soffíu Auðar Birgisdóttur á endurminningum ensku skáldkonunnar Virginiu Woolf.
Játningar Rousseau eru stórbrotið bókmenntaverk, hreinskilin og opinská sjálfsævisaga eins helsta hugsuðar átjándu aldar. Oft er talað um verkið sem fyrstu veraldlegu sjálfsævisöguna.
Útlínur liðins tíma eru minningarbrot Virginiu Woolf þar sem hún veltir fyrir sér eðli æviminninga og fjallar um líf sitt sem var markað áföllum og átökum milli kynslóða. Bókin varpar miklu ljósi á skáldverk þessarar merku skáldkonu og baráttu hennar fyrir frelsi frá hefðum þrúgandi feðraveldisins á uppvaxtarárum hennar.
Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn og Ottó, veitingahús bjóða í síðdegiskaffi, sunnudaginn 11. desember kl. 15:30-17:00, þar sem Pétur og Soffía Auður munu ræða saman um sjálfsæviskrif og lesa upp úr þýðingum sínum. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.