Rauðakrossdeild Hornafjarðar

0
679

Rauðakrossdeildin í Hornafirði vinnur að eftirfarandi verkefnum.
Neyðarvarnir: deildin er huti af neyðarvarnateymi sveitarfélagsins. Sjálfboðaliðar í neyðarvörnum eru meðal annars tilbúnir að setja upp fjöldahjálparstöð og söfnunaraðstöðu aðstandenda þegar þörf er á í tengslum við stórslys eða náttúruhamfarir. Neyðarkerra er í Öræfunum og vonandi kemur önnur á Höfn. Samstarf er á milli rauða kross deildarinnar og slysavarnafélagsins Framtíðin í neyðarvörnum. Sterkari og samheldnari hópur sem vinnur afskaplega þarft verk. Sjálfboðaliðar fara á námskeið í neyðarvörnum.

Viðbragðshópur: þetta verkefni er sameiginlegt verkefni allra deilda á suðurlandi. Viðbragðshópurinn samanstendur af einstaklingum sem taka að sér verkefni í sálrænum stuðningi í tengslum við slys, áföll, bruna ofl. Viðbragðsaðilar fara á námskeið á vegum Rauða krossins og taka vaktir viku í senn.
Fatagámar: deildin er með einn fatagám á planinu við N1, við Vesturbraut. Reynt er að tæma hann vikulega og stundum þarf að gera það oftar, veðrið hefur þó oft hindrað tæmingu. Hægt er að fara með fatapoka beint á gámasvæðið hjá Gárunni í kassa sem eru inni í húsinu. Það sem þarf að hafa í huga þegar föt eru sett í fatagáminn eða á gámasvæðið er að loka vel fyrir pokana því oft eru föt á lausu inni í gámnum. Einnig hvetjum við fólk til að setja EKKI poka fyrir utan gámana, frekar að fara með þá á gámasvæðið ef fatagámurinn er fullur. Rauði krossinn er í samstarfi við gámasvæðið og Flytjanda. Það er í vinnslu hjá deildinni að fá fleiri fatagáma.
Föt sem framlag/prjónað til góðs: er í samstarfi við dagvist aldraðra í Ekru og einstaklinga út í bæ. Sjálfboðaliðar prjóna föt sem send eru til bágstaddra ýmist innanlands eða erlendis.
Heimanámsaðstoð: var í boði um tíma en hefur verið sett í bið vegna dræmrar þáttöku.
Tungumálakaffi: er í samstarfi við Fræðslunetið og íslenskukennslu sem fram fer í FAS. Fólk af erlendum uppruna fær hér tækifæri til að hitta fólk sem talar íslensku og æfa sig í tungumálinu okkar og um leið að kynnast fólkinu á svæðinu.
Brjótum ísinn-bjóðum heim: sjálfboðaliðar bjóða fjölskyldum af erlendum uppruna í mat heim til sín. Þetta er leið til að rjúfa einangrun og aðstoða við íslensku þjálfun. Sjálfboðaliðar fara á námskeið.
Heimsóknarvinir: um er að ræða heimsóknir til fólks sem vill fá einhverja til að spjalla við, fara út að ganga með, fá félagsskap. Okkur sárvantar sjálfboðaliða í þetta verkefni. Sjálfboðaliðar fara á námskeið.
Bílavinir: um er að ræða að bjóða einstaklingum sem búa við einangrun í stutta bíltúra sem brýtur upp hversdaginn. Okkur sárvantar sjálfboðaliða í þetta verkefni. Sjálfboðaliðar fara á námskeið.
Skyndihjálp: deildin býður upp á skyndi­hjálparnámskeið fyrir sjálfboðaliða og 10. bekk Heppuskóla. Einnig hefur deildin boðið annað slagið upp á opin námskeið sem eru þá auglýst.
Einnig er hægt að gerast símavinur hjá Rauða krossinum. Þetta verkefni er liður í að rjúfa einangrun einstaklinga um allt land. Nánari upplýsingar um þessi verkefni er einnig hægt að nálgast á heimasíðu Rauða kross Íslands, raudikrossinn.is
Önnur verkefni sem eru þörf og skemmtileg en eru ekki á vegum rauða krossins eru:
Hjólavinir: það er á vegum hjúkrunarheimlisins. Þeir sem vilja gerast hjólavinir hafa samband við hjúkrunarheimilið. Hér er um að ræða reiðhjólaferð á flotta reiðhjólinu sem hjúkrunarheimilið eignaðist fyrir nokkru síðan. Gefur fólki tækifæri til að fara út og njóta um leið umhverfisins og félagsskapar.
Lestrarfólk í grunnskólanum: er á vegum grunnskólans og þeir sem vilja gerast lestrar ömmur/afar/mömmur/pabbar/frænkur/frændur geta haft samband við skólastjóra gunnskólans. Viðkomandi fer í grunnskólann og hlustar á börnin lesa á skólatíma.
Rauðakrossdeildin er að leita að húsnæði til leigu undir starfsemi sína. Hugmyndin er að vera með aðstöðu fyrir fólk til að hittast, fyrir fundi og minni námskeið en einnig undir fataverslun fyrir notuð föt eins og var hér eitt sinn um árið.
Vilt þú gerast sjálfboðaliði? Það er alltaf þörf á sjálfboðaliðum í hin ýmsu verkefni. Allir yfir 18 ára eru velkomnir að taka þátt í starfinu með okkur. Endilega hafið samband við Eyrúnu Axelsdóttur formann deildarinnar eða Hildi Ýr Ómarsdóttur verkefnastjóra um nánari upplýsingar. Svo er gaman að segja frá því að fésbókarsíða fyrir deildina er komin í loftið, þetta er like – síða þar sem hægt er að fylgjast með starfi deildarinnar.
Í lokin viljum við koma því á framfæri að sjálfboðið starf er jafn sterkt og sjálfboðaliðarnir gera það. Þeirra störf eru ómetanleg og þörfin er mikil. Á þessum skrítnu tímum sem við höfum verið að ganga í gegnum undanfarið ár hefur sýnt okkur hversu mikil einangrun hefur áhrif á líf okkar og hversu miklar félagsverum við erum. Hjálpum náunganum, styðjum hvort annað.

Rauði krossinn í Hornafirði.