Rafíþróttadeild Sindra

0
206

Starf innan rafíþróttadeildar Sindra hefur verið endurvakið eftir stuttan dvala. Mikill metnaður einkennir starfandi stjórn sem leggur megin áherslu á barna- og unglingastarf og hefur sókn í starfið stór aukist með tilkomu nýrrar stefnu. Sú stefna setur lýðheilsu og fræðslu í forgrunn með það verkefni að rjúfa þann ósýnilega vegg sem skilur að hegðun okkar í hversdagsleikanum og á Internetinu. Iðkendum er kennt að spila tölvuleiki á heilbrigðan og jákvæðan hátt sem og að innleiða heilbrigðan lífsstíl með fram iðkuninni. Í takt við megin gildi Ungmennafélagsins kennum við iðkendum okkar heiðarleika, samvinnu og metnað, en allir okkar þjálfarar ásamt aðilum úr stjórn sátu nýlega námsleið hjá RÍSI (Rafíþróttasambandi Íslands) og fengu þar staðfest að nálgun deildarinnar og hugsun er í takt við „íslensku leiðina“ og í takt við stefnu RÍSI, en sú aðferðarfræði er eftirsótt um allan heim og hefur RÍSI hlotið mikið lof fyrir barna- og unglingastarf rafíþrótta.
Ungmennafélagið Sindri státar sig af því að vera elsta aðildarfélag RÍSI og er það okkur sannur heiður að efla samvinnu við sambandið og sýna gott fordæmi fyrir önnur félög. Stefna deildarinnar er að eiga leikjaver sem þjónustar 25 iðkendur á sama tíma. Með því er deildin að gulltryggja að allir iðkendur njóti sömu tækifæra til iðkunnar, við bestu mögulegu aðstæður. Í dag eru 35 iðkendur á grunnskólaaldri sem iðka rafíþróttir í styrkjandi og styðjandi umhverfi. Það eru alls fimm þjálfarar sem koma að starfinu og hefur starfið farið frábærlega af stað. Iðkendur upplifa sig hluta af hóp og hluta af Ungmennafélaginu Sindra. Þá eru 8 iðkendur í meistaraflokki sem keppa fyrir hönd Sindra í keppnisumhverfi sem fer ört vaxandi og nýtur næst mesta áhorfs í heiminum á eftir HM í knattspyrnu.
Rafíþróttadeild Sindra er stolt af sínu starfi og full tilhlökkunar fyrir komandi tímum