Hægt er að virða fyrir sér verk Margrétar H. Blöndal á tveimur stöðum á Höfn. Annars vegar er hægt að sjá myndir sem börn við Landakotsskóla bjuggu til undir hennar handleiðslu á ganginum við sundlaug Hornafjarðar og hins vegar er hægt að hlusta á hljóðverk hennar í Gömlubúð. Að eigin sögn vinnur Margrét ekki með fyrirfram gefna og skýra hugmynd um hvað hún ætlar að gera heldur leyfir því sem hún er að vinna í að spinnast áfram út frá vinnuferlinu.
„Það á við um allt sem ég tek mér fyrir hendur. Hvernig litum er blandað, í hvaða átt ég lít, hvernig ég hreyfi mig um rýmið, hvernig ég meðhöndla efni og hvaða áhald ég nota. Nú er ég í kennslulotu og þar reyni ég að hafa samspil milli nemenda og mín. Finna hvað þeir hafa fram að færa og aðstoða svo við birtinguna. Ég get aldrei haft neitt niðurneglt heldur bý mér til grófan ramma og bregst svo við aðstæðum.“
„Með því að koma af stað einhverri hreyfingu, hver sem hún er; , breyta um sjónarhorn, fara út að ganga, fá tækifæri til þess að tæma hugann. Svo er hressandi að fá á sig flóðbylgju hvort sem hún er frískandi eins og hafaldan eða í formi lifandi flutnings; sviðslista eða tónverks. Bylgjur koma af stað hreyfingu og hreyfing er nauðsynleg til að rútta til hið innra og búa til pláss. “
Margrét hefur lengi spáð í æðarfuglinum
„Ég á dýrmæta minningu með barnungum syni mínum frá Trékyllisvík á Ströndum þar sem við dvöldum og tókum þátt í dúntekju skömmu eftir aldamót. Það var því gleðiefni að fá að tengjast æðarfuglinum á ný. Ég vann verk mitt í samvinnu við fimm og sex ára nemendur úr Landakotsskóla í upphafi covid-faraldursins þegar ríkti óvissa og ótti um framtíðina. Þá var ómetanlegt að geta sökkt sér í heim æðarfuglsins og deilt með nemendum frásögnum þar sem umhyggja, þolinmæði, natni og alúð er undirstaða farsællar samvinnu tveggja dýrategunda, manns og æðarfugls. Æðarfuglinn er viðkvæmur og varnarlaus og að honum steðjar hætta en maðurinn getur hlúð að, gripið inn í og komið honum til aðstoðar.“
Margrét er nú stödd á Hornafirði og mun hitta nemendur í grunnskólanum og leiðbeina í myndmenntatímum. En hvað finnst henni að allir ættu að vita um æðarfuglinn?
„Það er ógjörnungur að verða ósnortin af æðarfuglinum. Æðarkollurnar hjálpast að við uppeldi unga sinna og veigra sér ekki við að taka unga í fóstur. Æðarfuglinn er félagsvera og ú-hljóðið sem hann gefur frá sér er ómótstæðilegt. Æðarfuglinn á hlýjustu fjöður í heimi, dúninn. Dúnninn er töfraefni sem býr yfir slíku þanþoli að smáhnoðri sem rúmast í litlu hylki bólgnar margfaldlega út þegar hann er þaðan tekinn.“