Nýr framkvæmdastjóri Sindra

0
5476

Fyrir fáeinum vikum var ráðinn nýr framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Sindra, Lárus Páll Pálsson. Hann er menntaður viðskipta- og rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur einnig klárað 3ja ára háskólanám við Háskólann í Reykjavík af íþróttasviði. Lárus hefur starfað við ýmis verkefni, þar á meðal sem framkvæmdastjóri hjá Fimleikadeild Ármanns, rekstrarstjóri hjá Arcanum ásamt hefðbundnum störfum eins og skógarhöggsmaður, sjómaður og bankastarfsmaður. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í hinum ýmsu félagsstörfum hjá Lyftingasambandi Íslands, Íþróttafélagi Ármanns sem er fjölmennasta íþróttafélag landsins ásamt öðrum félagsstörfum t.d. í Lionshreyfingunni.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka starfi framkvæmdastjóra Sinda ?
Þetta starf vakti strax áhuga minn þar sem ég hef mikinn áhuga á að byggja upp íþróttastarf og vildi nýta þá menntun sem ég hef aflað mér á háskólastigi til þess. Ég er einnig í Mastersnámi í Ólympíufræðum við Alþjóða Ólympíuháskólann í Olympiu á Grikklandi þar sem grunngildi Ólympíu-hreyfingarinnar eru kennd og farið er yfir það hvernig hægt er að nýta íþróttir til þess að leiðbeina iðkendum hvernig á að umgangast aðra, bera virðingu fyrir umhverfinu og ólíkum sjónarmiðum og hvernig íþróttir geta sameinað fólk af ólíkum uppruna. Einnig erum við fimm manna fjölskylda sem höfðum áhuga á að flytja út á land og þetta var kjörið tækifæri til þess, þar sem konan mín fékk einnig starf við Grunnskólann hér á Höfn, sem heimilisfræðikennari.
Framtíðarsýn fyrir Sindra ?
Ég tel að UMF. Sindri hafi alla burði til þess að byggja upp gott íþróttastarf. Aðstaðan sem sveitarfélagið býður upp á, er með besta móti, við erum með sundlaug, knattspyrnuhús og flotta frjálsíþrótta aðstöðu og knattspyrnuvöll, að auki eru íþróttahús sem eru vítt og breytt um sveitarfélagið. Það sem ég tel að sé mikilvægast fyrir Sindra er að huga að þeim iðkendum sem eru að vaxa og dafna innan sveitarfélagsins. Það þarf að vera með langtímahugsun í íþróttastarfi og hafa þarfir hvers íþróttamanns fyrir sig í fyrirrúmi.
Eitthvað að lokum ?
Ég vill hvetja foreldra til að taka þátt í því frábæra starfi sem er unnið í deildunum hjá UMF. Sindra. Með því að foreldrar láti sjá sig og láta til sín taka í starfinu náum við enn betri árangri og sýnum börnunum að við höfum áhuga á að því sem þau taka sér fyrir hendur. Ég tel að málshátturinn „Það tekur heilt þorp að ala upp barn“ eigi mjög vel við og í sameiningu getum við stuðlað að góðum félagslegum og líkamlegum þroska þeirra einstaklinga sem eru að vaxa úr grasi hér á Hornafirði.