Nítugasta ársþing Ungmennasambands Úlfljóts

0
189

Nítugasta ársþing USÚ fór fram á Hótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars s.l. Þingið var vel sótt en alls mættu 38 fulltrúar af þeim 52 sem rétt áttu til þingsetu. Öll virk aðildarfélög, nema tvö sendu fulltrúa á þingið. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Sigurjón Andrésson bæjarstjóri stýrði þinginu og Jón Guðni Sigurðsson ritari USÚ ritaði þinggerð. Þórey Edda Elísdóttir var gestur á þinginu en hún er 1. Varaforseti ÍSÍ. Starf USÚ á árinu 2022 var nokkuð fjölbreytt. Jóhanna Íris formaður og Sigurður Óskar gjaldkeri fóru til Noregs í mars með góðum hópi ungmennafélaga frá aðildarfélögum UMFÍ. Markmið ferðarinnar var að heimsækja íþróttahéraðið Viken sem er fjölmennasta íþróttahéraðið í Noregi. Þann 15. apríl var Ungmennafélagið Vísir í Suðurveit endurvakið af kröftugum ungmennafélögum og mun það verða samfélaginu í Suðursveit til góðs. Formaður fór á hina ýmsu fundi og þing m.a á vorfund UMFÍ og formannafund ÍSÍ. Þann 28. maí hélt USÚ upp á 90. ára afmæli sitt. Dagurinn heppnaðist vel í alla staði og það var frábært að sjá bæjarbúa koma saman og eiga góðan dag undir nafni USÚ. Þann 15. október sambandsráðsfundur UMFÍ haldinn í Nýheimum. Sambandsráðsfundur er æðsta vald í málefnum innan UMFÍ á milli sambandsþinga. Á fundinn mættu rúmlega fjörutíu formenn og 5 varaformenn sambandsaðila, ásamt stjórn, varastjórn og starfsfólki UMFÍ. Meðal þess sem rætt var um var fækkun íþróttahéraða og var fyrsta tillaga að breyttu starfsumhverfi íþróttahéraða kynnt. Formaður USÚ var skipaður fundarstjóri og gjaldkeri fundarritari. Mikil ánægja var með fundinn og umgjörðina í kringum hann. Sambandsráðsfundur og þing UMFÍ höfðu ekki farið fram á sambandssvæði USÚ frá árinu 1990. Nánar má lesa um starfið 2022 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ á heimasíðu USÚ, www.usu.is, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2022 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra. Á þinginu var samþykkt ný lottó úthlutunarreglugerð sem einfaldar nýjum félögum að koma inn í lottópottinn, ef þau uppfylla öll önnur skilyrði. Einnig voru veitt hvatningarverðlaun til ungra og efnilegra iðkenda sem eru að standa sig vel í íþróttaiðkun sinni og eru til fyrirmyndar fyrir aðra iðkendur, ekki einungis á æfingum eða í keppni heldur einnig með hugarfari sínu. Að þessu sinni fengu fimm ungmenni viðurkenninguna. Einnig var íþróttamaður ársins 2022 heiðraður. Maríus Máni Jónsson Maríus æfir knattspyrnu hjá knattspyrnudeild Sindra, Hann hefur vaxið mikið síðastliðið ár bæði sem leikmaður og einstaklingur. Hann hefur verið leiðtogi innan síns liðs og hjálpað liðsfélögum sínum að ná árangri.Hann tekur mikla ábyrgð í sinni þjálfun og er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, sérstaklega eftir að hann fór að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki og á framtíðina fyrir sér. Elín Ása Hjálmarsdóttir Elín kemur úr knattspyrnu og hefur alltaf verið frábær og stuðningsríkur liðsfélagi. Hún tekur mikla ábyrgð og sýnir framúrskarandi hugarfar í þjálfunarferlinu og veit hversu mikilvægt það er að vera góður liðsfélagi. Allir njóta þess þegar Elín er með, hvort sem það er í 3. flokki eða í meistaraflokki. Hún er topp persónuleiki og frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur. Elín Ósk Óskarsdóttir Elín Ósk er efnilegur knapi og kemur úr Hestamannafélaginu Hornfirðingi. Hún hefur sýnt góðan árangur og mikinn metnað í að læra og fór meðal annars á reiðnámskeið með Olil Amble reiðkennara sem ætlað var fyrir keppnisfólk og þá sem eru lengra komnir í þjálfun og sýningum. Elín Ósk fékk aðgang að hæfileikamótun Landssambands Hestamanna þar sem einungis 31 unglingur af landinu öllu komst að. Með því að vera komin í hæfileikamótun eru þátttakendur hluti af afreksstarfi LH. Auk þess að sýna mikinn áhuga á að læra. Elín Ósk hefur keppt á fjölda móta og staðið sig með einstakri prýði. Síðasta mótið sem hún fór á var Gæðingamót Sörla í Hafnarfirði sem haldið var í lok ágúst. Elín Ósk og Ísafold voru efstar inn í A-úrslit með 8,58 og enduðu í 2. sæti með einkunina 8,65. Elín Ósk er öðrum ungum knöpum mikil fyrirmynd og á framtíðina fyrir sér í hestamennsku. Kacper Ksepko Kacper Ksepko æfir með körfuknattleiksdeild Sindra. Kacper er gríðarlega hæfileikaríkur og duglegur leikmaður, hann mætir á allar æfingar sem í boði eru og rúmlega það, Kacper spilar með 9. flokki Sindra auk þess að æfa að fullum krafti með meistaraflokki félagsins þar sem hann hefur, þrátt fyrir ungan aldur, nú þegar fengið sínar fyrstu mínútur á parkettinu og sett sín fyrstu en ekki sín síðustu stig fyrir meistaraflokk. Með dugnaði hefur Kacper tekið gríðar miklum framförum sem leikmaður og þykir einnig afbragðs liðsmaður innan hópsins, það er alveg ljóst að það er ekki lengur spurning hvort heldur hvenær Kacper verður kominn í landsliðstreyju Íslands því slíkur er áhuginn og metnaðurinn. Auk þjálfunar sinnar hefur Kacper sinnt aðstoðarþjálfun hjá yngri iðkendum við góðan orðstír og er alltaf tilbúinn að hlaupa inn ef vantar. Kacper er mikil fyrirmynd fyrir yngri körfuboltaiðkendur og á bjarta framtíð fyrir sér innan vallar sem utan. Friðrik Snær Friðriksson Er ungur knapi sem kemur úr Hestamannafélaginu Hornfirðingi. Hann sinnir sinni hestamennsku sinni af miklum áhuga og alúð. Hann tók þátt í Meistaradeild Líflands og æskunnar veturinn 2022. Friðriki gekk mjög vel og var hann með hross sem voru aðstíga sín fyrstu skref í íþróttakeppni. Hann lagði á sig mikinn tíma og ferðalög til þess að geta tekið þátt og má ætla að kílómetrafjöldinn hafi verið á milli 5-6 þúsund kílómetrar fyrir bæði knapa og hesta í þessar keppnir. Friðrik tók þátt í hæfileikamótun Landssambands hestamanna og þar með orðinn hluti af afreksstarfi Landssambands hestamanna. Hann hefur mikinn vilja til þess að læra og hefur sótt fyrirlestrar sem efla hugsun á bak við góða næringu í keppni og þjálfun. Auk þess að taka þátt í mörgum keppnum sem og sinna iðkun sinni af miklum krafti er Friðrik mikil fyrirmynd fyrir aðra unga knapa. Þorlákur Helgi Pálmason – Íþróttamaður ársins. Það er hægt að segja svo margt um hann Helga, en fyrst og fremst er hann Sindramaður. Hann er fyrirliði inni á vellinum en utan hans er hann einnig leiðtogi. Hann er kurteis, bóngóður, jákvæður, yfirvegaður, rólegur en þó ákveðinn og stýrir liðinu vel. Það komu ár þar sem Helgi var oft meiddur, en þrátt fyrir það þá mætti hann á hverja einustu æfingu og gerði sitt prógram og tók aðra meiðslapésa með í æfingarnar. Með jákvæðni og dugnaði náði hann sér upp úr meiðslum og kom sér ótrúlega fljótt á sinn stað í hjarta varnarinnar. Helgi er mikill liðsmaður og ber hag félagsins ætíð fyrir brjósti. Við erum heppin að eiga Þorlák Helga í okkar liði. Á þinginu sæmdi Þórey Edda, Gest Halldórsson silfurmerki ÍSÍ fyrir margra ára störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Gestur hefur tengst íþróttahreyfingunni um langt árabil. Núna síðast sem formaður Golfklúbbs Hornafjarðar, en hann lét af því embætti nú á dögunum eftir a.m.k. áratuga stjórnarsetu. Undanfarin ár hefur Gestur reyndar lítið getað sinnt sínum eigin golfáhuga, því mikið hefur verið að gera í klúbbstarfinu. Golfklúbburinn hefur t.d. verið að endurnýja vallarhúsið sitt, með Gest í broddi fylkingar, enda gengur hann í öll störf sem þar þarf að sinna, og auðvitað alls konar verk úti á velli að auki. Fyrir stjórnunarstörfin í Golfklúbbnum sat Gestur í stjórn Umf. Sindra um tíma auk þess sem hann stýrði getraunastarfi knattspyrnudeildar Sindra með miklum myndarbrag um árabil. Þá sat Gestur í stjórn Styrktar- og afrekssjóðs USÚ í tæpan áratug, frá 2011 til 2020. Sigurður Óskar Jónsson gjaldkeri USÚ sem einnig situr í stjórn UMFÍ veitti Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur starfsmerki UMFÍ fyrir störf hennar í þágu íþróttahreyfingarinnar. Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kom inn í stjórn USÚ árið 2015. Hún sat fyrsta árið sem ritari, en tók svo við sem formaður 2016 og hefur sinnt því hlutverki síðan. Hún er nú þegar orðin meðal þaulsetnustu formanna USÚ frá upphafi, en hún er í fjórða sæti á þeim lista. Hún hefur undanfarið kjörtímabil stjórnar UMFÍ setið í vinnuhópi um íþróttahéruð og lottóreglur hjá UMFÍ og einnig í Útgáfu- og kynningarnefnd UMFÍ. Þar að auki hefur hún tvisvar verið í undirbúningsnefnd Unglingalandsmóta, 2013 og 2019, í fyrra skiptið sem ritari og í síðara skiptið sem keppnisstjóri og formaður USÚ. Þá hefur hún verið formaður yngriflokkaráðs körfuknattleiksdeildar Sindra undanfarið ár og var endurkjörin á aðalfundi í síðustu viku. Jóhanna er drífandi og alltaf til í að hjálpa til og virðist alltaf hafa nægan tíma fyrir sjálfboðaliðastarf, þó hún sé ung fjögurra barna móðir, í fullu starfi og yfirleitt í fullu námi líka. Ungmennafélagsandinn svífur svo sannarlega yfir vötnum hjá Jóhönnu. Það er ótrúlegt að í ekki stærra íþróttahéraði, hvað íbúafjölda varðar, skuli vera níu virk aðildarfélög og það er ekki annað hægt að segja en að það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Þær eru ófáar sjálfboðaliðahendurnar sem gera þetta allt mögulegt og eigi allir þeir sem koma að íþrótta og ungmennastarfi innan sambandssvæðis USÚ mikið hrós skilið fyrir þann mikla metnað sem býr í héraðinu.