Nettómót Austurlands í Icelagoon Höllinni

0
522

Síðastliðinn sunnudag voru samankomin um 100 börn á Nettómóti Austurlands í Icelagoon Höllinni. Tilefnið var körfuboltamót fyrir krakka í 1.-6. bekk á Austurlandi sem körfuknattleiksdeild Sindra stóð fyrir. Markmiðið með mótinu er að styrkja körfuboltastarf á Suðaustur- og Austurlandi og gefa krökkum færi á að keppa við sína jafnaldra. Þar sem vegalengdin milli bæja á þessu svæði er hófleg er tilvalið að halda dagsmót. Einnig er markmiðið að skapa vettvang fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni, hluti af því er að ekki eru talin stig heldur leitast við að kenna grunnatriðin í keppni.
Skemmst er frá því að segja að mótið heppnaðist með ágætum og frábært að sjá hvað krakkarnir skemmtu sér vel og létu kappið ekki bera fegurðina ofurliði. Nettó kom að mótinu sem styrktaraðili og gaf öllum iðkendum verðlaunapeninga og bolta fyrir þátttökuna. Einnig voru fríir ávextir í boði. Frábært var að sjá hvað jákvæð stemning var í kringum mótið, foreldrar gengu í hin ýmsu störf með bros á vör og leikmenn meistaraflokks Sindra sáu um dómgæslu. Við í Sindra viljum þakka öllum þeim sem komu að mótinu með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir þeirra hlut og sjáumst hress að ári liðnu á næsta móti.