Mjólkurbikarinn

0
658

Sindri heimsótti Víking Reykjavík í 32 liða úrslitum Mjólkurbikar karla fimmtudaginn 24. júní. Sindramenn höfðu á leið sinni slegið út Fjarðabyggð, 0 – 2 í höllinni á Reyðarfirði.
Víkingar sem hafa byrjað sumarið afskaplega vel í efstu deild karla, sátu í öðru sæti Pepsi Max deildarinnar þegar Sindri mætti til þeirra á Heimavöll hamingjunnar í Fossvoginum.
Víkingur byrjaði leikinn af þó nokkrum krafti. Það átti greinilega ekki að vanmeta Sindra frá Hornafirði. Þeim gekk þó illa að skapa sér einhver alvöru marktækifæri en þegar það tókst stóð Róbert Marwin vaktina í marki Sindra og varði það sem kom á markið.
Á 21 mínútu komst hinsvegar Kwame Quee leikmaður Víkinga upp að endalínu, átti afbragðs sendingu inn í teig Sindra og Adam Ægir Pálsson kláraði færið vel.
Eftir markið vaknaði Sindra liðið. Þeir náðu inn góðum sóknum ásamt því að halda áfram að spila þéttan varnarleik. Abdul átti góða sendingu inn fyrir vörn Víkinga sem fann Kristófer Hernandez en fyrrverandi landsliðsmarkmaðurinn Ingvar Jónsson sá við honum. Undir lok fyrri hálfleiks átti síðan Þorlákur Helgi bylmings skot að marki sem flaug hárfínt framhjá.
Í staðinn fyrir að jafna leikinn 1-1 fyrir hálfleik, brunuðu Víkingar upp völlinn í góða sókn sem endaði með sendingu á Kwame sem kláraði færið og kom Víkingum í 2-0.
Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. Víkingur meira með boltann án þess þó að ná að skapa sér góð færi. Það var þó á 52. mínútu sem Viktor Örlygur leikmaður Víkinga vann boltann á vallarhelmingi Sindra, sem endar með góðu skoti og marki.
Sindri náði áfram að ógna í föstum leikatriðum og vel útfærðum sóknum. Bæði Robertas Freidgeimas og Mate Paponja áttu góðar tilraunir á mark heimamanna og létu markmann Víkinga hafa fyrir því.
Heilt yfir var frammistaða liðsins góð gegn sterku liði Víkings frá Reykjavík. Margir heimastrákar fengu að prófa sig gegn efstu deildar liði Víkinga og máta sig við marga af öflugustu leikmönnum landsins.