Menntun í heimabyggð er byggðamál

0
748

Menntun á að vera aðgengileg öllum, sama hvar við búum, ef við viljum tryggja blómlega byggð á landinu öllu. Fjölbreytt menntun og nýsköpun gegna þar lykilatriði og er undirstaða jákvæðrar byggðaþróunar. Án fjölbreyttra menntunarmöguleika þrífst ungt fólk ekki heima og með tilheyrandi álagi og kostnaði fyrir fjölskyldur flykkist unga fólkið okkar á stóru þéttbýlisstaðina og ílengist jafnvel þar.

Það er að mörgu að hyggja hvað varðar nám að loknum grunnskóla. Tryggja þarf fjölbreytt nám í framhaldsskólum sem heldur utan um einstaklinga og er styðjandi hvað varðar þroska og hæfileika. Á þessum aldri er ungt fólk að upplifa miklar breytingar og mikilvægt að hægt sé að fara í gegn um nám á eigin hraða. Það þarf að gera ungu fólki kleift að búa áfram heima ef svo ber undir eða aðgang að heimavist eða öðru búsetuúrræði kjósi það nám sem krefst staðbundinnar viðveru í lengri eða skemmri tíma. Í framhaldsskólum þarf að vera fjölbreytt námsval hvort sem er í stað- eða fjarnámi, jafnvel í samvinnu við aðra skóla og virkt samstarf við atvinnulífið ef um verknám er að ræða. Í nýsamþykktri stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um menntamál segir meðal annars að tryggja þurfi jöfn tækifæri til menntunar óháð búsetu, þar sem sérstaklega þurfi að huga að aðgengi að iðn- og listnámi.

Að næsta menntunarstigi, háskólanámi. Gjörbreyta þarf viðhorfi og umhverfi háskólanáms. Þar á fjarnám að vera í forgrunni enda mörg sem á landsbyggðunum búa stofnað heimili og jafnvel fjölskyldu. Fólk á að geta hafið nám hvenær sem er á lífsleiðinni, hvar sem það býr og sem liður í að auka menntunarstig á landsbyggðunum þarf að tryggja námsframboð, aðgengi að húsnæði og búnaði sem og nýsköpunar- og rannsóknarstyrkjum.

Efla þarf þekkingarsetur á minni stöðum, þar ætti að vera aðstaða fyrir fræðasetur og starfsfólk fyrirtækja sem fær að vinna í heimabyggð undir merkjum störf án staðsetninga ásamt aðstöðu fyrir rannsóknir, lista- og menningarstarf. Fræðasetrin geta haldið utan um fjarnám nemenda á framhalds- og háskólastigi og í fullorðinsfræðslu. Þar getur myndast mikill þekkingarauður og kraftur sem skilar sér út í samfélagið og eflir byggðir af öllum stærðum og gerðum.

Tryggjum fjölbreytt nám og fjölbreyttar leiðir til að stunda nám undir merkjum byggðajafnréttis og með hag alls samfélagsins að leiðarljósi.

Hólmfríður Árnadóttir, menntunarfræðingur, oddviti
Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi

Sigrún Birna Steinarsdóttir, landfræðingur, 3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi