Búsetufrelsi í velsældarsamfélagi allra

0
442

Ég veit ekki til þess að nýr samfélagssáttmáli hafi verið gerður þar sem við sammæltumst um að leggja niður byggð í landinu. En mér sýnist allt stefna í þá átt. Hægt og sígandi er verið að drepa landsbyggðina og þetta kemur úr öllum áttum.

Við Píratar vitum hvernig  landsbyggðinni getur lifað í velsæld.
Fyrst þarf grunninnviði. Það þarf góða vegi og góðar brýr, góðar flug- og sjósamgöngur. Hér hefði mátt bæta heilmikið í á kjörtímabilinu. Þjóðvegur 1 er alltof þröngur á köflum, það eru engar axlir, brotnað upp úr köntum, alltof fá útskot, enn eru of margar einbreiðar brýr þó þeim hafi fækkað. Ég hvet Kvennakórinn til að syngja enn meira og jafnvel hærra til að tryggja að því verkefni ljúki. Þetta er stórhættulegt, sérstaklega eftir að allir þungaflutningar fluttust upp á land og ferðamennskan sprakk út. En það þarf fleira. 

Það verður að efla flutnings- og dreifikerfi raforku og hraða þrífösun. Og það þarf að ljósleiðaravæða allar byggðir. Skortur á þessum innviðum stendur atvinnulífi fyrir þrifum. Þetta kostar sitt, en það er dýrt að búa í strjálbýlu landi. Við verðum öll að sætta okkur við það. Þessi veitukerfi eiga að vera í opinberri eigu svo þetta sé einfalt og hagkvæmt. Það er ferlegt að sjá þrjú fyrirtæki leggja ljósleiðara á sama stað. Hugsið ykkur ef við hefðum þrefalt vegakerfi.

Fyrir utan hörðu innviðina þá þarf grunnþjónustu fyrir fólkið sem starfar á svæðinu. Heilbrigðisþjónusta og staðgóð menntun er grundvöllur byggðar og atvinnu. Við viljum stefna að gjaldfrjálsri heilsugæslu um allt land. Við viljum skipuleggja heilbrigðisþjónustuna þannig að grunnþjónustu fáir þú í héraði, næsta stigs þjónustu á þínu fjórðungssjúkrahúsi og þriðja stigs sérhæfð þjónusta sé veitt á Landspítalanum. En hvað þarf til? Fjármagn. Það er svo einfalt að heilbrigðisgeirinn hefur verið fjársveltur. Og starfsfólk hans líka. Við verðum að gera heilbrigðisáætlun til langs tíma og hefja endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst í takti við hækkandi lífaldur. Finnum skynsamlegar lausnir, nýtum betur þær heilbrigðisstofnanir sem við eigum, fjórðungssjúkrahúsin og sjúkrahúsin í kringum höfuðborgarsvæðið.

Leysum mönnunarvandann og greiðum heilbrigðisstarfsfólki betri laun, tryggjum viðunandi starfsaðstæður og mátulegt álag. Hið opinbera á að vera fyrirmyndaratvinnurekandi, en spyrjið stéttarfélög hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sjúkraliða, lífeindatækna ofl. hvernig er að semja við hið opinbera. Gerum starfskjör þessara mikilvægu stétta betri. Þá er ég ekki að tala bara um beinhörð laun, heldur vinnutími, vaktalengdir, ég er að tala um skipulagsbreytingar öllum í hag.

Tímarnir hafa breyst. Fólk vill velsæld. Sumt er ekki peninganna virði. Fólk vill jafnvægi milli vinnu og heimilis. Ekkert stress. Engar stöðugar fjárhagsáhyggjur að buga fólk. Afkomuótti og kulnun eru algeng systkini í nútímasamfélagi.

Og breytum menntakerfinu um leið. Gerum það sveigjanlegra þannig að öllum líði vel. Eflum iðn-, tækni-, verk- og listnám á öllum skólastigum. Fáum fjölbreytt störf, nám og nýsköpun í hérað. (Störf án staðsetningar, nei! Við erum með staðsetningu: Landsbyggðin) Notum tæknina! Nýtum klasahugmyndafræðina þar sem þekkinga- og háskólasetur, FabLab, skólarnir og atvinnulífið starfar saman að fjölbreyttri menntun, rannsóknum og þróun.

Ef allt þetta helst í hendur, þá fáum við blómlega byggð um allt land. Þetta gerist ekki yfir nótt, við þurfum að vinna að þessu. En fyrst og fremst þarf grunninnviði og gefa fólki frelsi til athafna. Við stefnum á Nýsköpunarlandið Ísland. Og höfuðborgin verður landsbyggðin.

Álfheiður Eymarsdóttir
Oddviti Pírata í Suðurkjördæmi