Menningarverðlaun, umhverfisviðurkenningar og styrkveitingar

0
882

Föstudaginn 8. mars var mikið um dýrðir hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, en þá fór fram afhending styrkja og viðurkenninga sveitarfélagsins í Nýheimum. Alls voru 25 styrkir veittir, það voru
styrkir menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundar­nefndar, sem og styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði.
Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hennar mikilvægi þess að koma saman og fagna fjölbreyttri menningu, umhverfisvitund og frumkvöðlastarfi í sveitarfélaginu því menning er samofin samfélaginu og órjúfanlegur hluti þess.

Menningarverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1994 og í ár voru fjórir einstaklingar tilnefndir til verðlaunanna. Fram kom í ræðu Hólmfríðar Bryndísar Þrúðmarsdóttur varaformanns menningarnefndar, að helsta markmið Menningarmálanefndar væri að hvetja til öflugs menningarstarfs í samstarfi við íbúa sveitarfélagsins. Að þessu sinni hlaut Eva Bjarnadóttir verðlaunin fyrir óeigingjarnt starf í þágu menningar í Öræfum.
Síðan Eva og Peter settust að á Fagurhólsmýri hefur Gamla sláturhúsið gengið í gengum endurnýjun lífdaga. Í ágúst síðastliðnum var vinnustofa hennar opnuð við hátíðlega athöfn. Í tilefni af því var efnt til allsherjar listaveislu. Þar voru m.a. sýndir gamlir munir frá tímum slátrunar og sundmagavinnslu, lesnar upp vísnakeðjur milli Þorsteins Jóhannssonar í Svínafelli og Halldóru Magnúsdóttur, sem vann í afurðasölu S.Í.S, og haldnir tónleikar, svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess hefur Eva verið boðin og búin að leiðsegja gestum og gangandi um Sláturhúsið og leiða í gegnum sögu þess. Ennfremur hefur hún verið aðal driffjöðurin í bókakynningu Ungmennafélags Öræfa.

Menningarstyrkir

Alls bárust tíu umsóknir um Menningarstyrki, og eru þeir veittir félagasamtökum og einstaklingum til menningartengdra verkefna. Fram kom í máli Hólmfríðar að með þessum styrkjum vilji nefndin hvetja og styrkja félagasamtök og einstaklinga til frekari starfa í þágu menningar. Eftirtalin félagasamtök hlutu styrk að þessu sinni:
Gleðigjafar, Blús- og rokk­klúbbur Hornafjarðar, Hornfirska skemmti­félagið, Karlakórinn Jökull, Kvennakór Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar, Lúðrasveit Hornafjarðar, Samkór Hornafjarðar, Foreldrafélag Hornafjarðar og Flón “uppsetning listviðburða í fundarhúsinu í Lóni“

Atvinnu- og rannsóknarsjóður

Bjarni Ólafur Stefánsson fulltrúi í atvinnumálanefnd afhenti styrki atvinnu- og rannsóknarsjóðs. Fram kom í máli hans að í ár hafi nefndinni borist sex metnaðarfullar umsóknir. Hljóðaði heildarupphæð umsóknanna upp á 3.8 miljónir en alls voru 2.6 milljónir króna til úthlutunar.
Einnig tók Bjarni Ólafur fram að meginhlutverk sjóðsins væri: „Að efla byggð og atvinnu í Sveitarfélaginu Hornafirði og er sjóðnum ætlað að veita styrki til verkefna sem lúta að atvinnuþróun, rannsóknum og nýsköpun í Sveitarfélaginu Hornafirði.“
Í ár var einni milljón úthlutað úr A-hluta og hlaut Jóhanna Íris Ingólfsdóttir styrkinn að þessu sinni fyrir verkefnið Blóm í heimabyggð.
Úr B-hluta var úthlutað 1.6 milljónum. Náttúrustofa Suðausturlands hlaut tvo styrki, annarsvegar fyrir verkefnið “Náttúrustígur á Höfn – Endurnýjun á sólkerfi og skiltum við stíginn“ og hinsvegar fyrir „Vöktun vaðfugla á leirum í Skarðsfirði“ Ennfremur hlaut Fuglaathugunarstöð Suðurlands styrk fyrir verkefnið „Varpútbreiðsla skúms á Skeiðarársandi og í Ingólfshöfða“

Umhverfis­viðurkenning 2018

Finnur Smári Torfason formaður umhverfisnefndar afhenti umhverfis­viðurkenningar. Sagði hann að helsta markmið viðurkenninganna væri er að vekja íbúa sveitarfélagsins til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis á samfélagið og jafnframt að hvetja þá til að sýna náttúrunni og umhverfinu tilhlýðilega virðingu.
Guðrún Sturlaugsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir einstaklings­framlag í þágu umhverfismála. Hún, ásamt fjölskyldu sinni, hefur hvatt Hornfirðinga til að huga að umhverfi sínu í víðu samhengi. Guðrún kom af stað pokasaumsverkefni sem hefur undið upp á sig og má nú finna pokastöðvar um allt land. Einnig er hún ein af stofnfélögum Umhverfissamtaka Austur-Skaftafellssýslu.
Ragnhildur Eymundsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir fallega og snyrtilega lóð að Holti 1 í Nesjum. Í umsögn kom fram að viðurkenningin sé veitt fyrir einstaklega fallegan og ævintýralegan garð með fjölbreyttum gróðri sem er hirtur af einstakri natni. Þar hafa ýmsar tegundir skotið rótum frá náttúrunnar hendi og fengið að vaxa þar og dafna, þar á meðal hinar ýmsu berjategundir sem setja ævintýralegann svip á garðinn.
Leikskólinn Sjónarhóll hlaut viðurkenningu í flokki fyrirtækja og stofnana, fyrir vel heppnaða endurgerð á lóð og húsnæði. Í umsögn kom fram að frágangur á lóð í kringum leikskólann falli vel að umhverfi sínu og geta börn á öllum aldri fundið þar eitthvað við sitt hæfi.
Athöfnin var hátíðleg, en Nanna Imsland og Friðrik Jónsson stigu á stokk og fluttu íslensk lög.
Öllum styrk- og verðlaunahöfum er óskað til hamingju.