Menningarhátíð Hornafjarðar

0
492

Föstudaginn 10. mars var mikið um dýrðir hér í Hornafirði, en þá var haldin vegleg menningarhátíð sveitarfélagsins í Nýheimum. Menningarverðlaun, umhverfisviðurkenningar og styrkir voru afhent. Alls voru 25 styrkir veittir, það voru styrkir atvinnu- og menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundanefndar, og styrkir úr atvinnu- og rannsóknasjóði.
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hans að Menningarstarf skiptir okkur öll máli. Það þróar okkar sjálfsmynd, stolt og meðvitund fyrir uppruna. Menning eflir líka samheldni þar sem slík starfsemi leiðir saman fólk af ólíkum uppruna og byggir brýr á milli ólíkra hluta samfélagsins. Menningarstarf stuðlar að auknum skilningi og umburðarlyndi – en í slíku samfélagi líður okkur öllum betur.
Menningarverðlaun fyrir árið 2022
Menningarverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1994, til þeirra sem teljast hafa skarað fram úr á sviði lista, á árinu eða fyrir æviframlag. Að þessu sinni hlaut Kristín Gestsdóttir verðlaunin fyrir framlag hennar til menningar í sveitarfélaginu.
Kristín hefur verið virk í menningarlífi Hornafjarðar síðan hún flutti til Hafnar. Hún gekk strax í Leikfélag Hornafjarðar og fór strax að leika og tók síðar að sér leikstjórn, skrifaði handrit og sat í stjórn leikfélagsins.
Fyrsta sýning Skemmtifélags Hornafjarðar Slappaðu af var samstarfsverkefni Kristínar, Heiðars Sigurðssonar og Sigurðar Mar, þeir sömdu tónlistina og Kristín skrifaði söguþráðinn.
Norðurljósablús var annað samstarfsverkefni hjá þeim Kristínu, Heiðari og Sigurði Mar. En Kristín hefur líka verið virk í fleiri verkefnum eins og Humarhátíð. Já Kristín er liðtæk á margvíslegum sviðum menningar og lista.
Þau sem voru einnig tilnefnd eru:
Erna Gísladóttir formaður Kvennakórs Hornafjarðar, Þorsteinn Sigurbergsson ljósamaður, Guðný Svavarsdóttir, Hlynur Pálmason leikstjóri, Ída Mekkín Hlynsdóttir leikkona, Þorgils Hlynsson og Grímur Hlynson sem léku í stuttmyndinni Hreiðrið, Karlakórinn Jökull, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Hirðingjarnir.
Atvinnu og Rannsóknarsjóður
Alls bárust atvinnumálanefnd sjö umsóknir í sjóðinn og hljóðaði heildarupphæð þeirra upp á 5.300 þúsund. Í ár voru 800 þúsund veitt úr í A hluta, en úr honum er einu verkefni veittur styrkur árlega, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands hlaut styrkinn að þessu sinni fyrir verkefnið Helsingjar á Suðausturlandi aflestur litmerkja 2023. og 1,2 milljónir í B hluta sjóðsins, sem deilist á milli nokkurra verkefna. Helsingjar hafi orpið í Sveitarfélaginu Hornafirði frá árinu 1988 og að þeim hafi fjölgað mikið á þeim 35 árum sem liðin eru frá fyrsta varpinu en hægt hefur á þeirri þróun og því er nauðsynlegt að fylgjast vel með þeirri þróun.
Fimm verkefni hlutu styrk úr B hluta í ár, þar af eru fjögur þeirra rannsóknarverkefni en eitt atvinnutengt. Fyrirtækið Jöklaverðir ehf. sem hlaut 270 þúsund króna styrk úr B sjóði fyrir verkefnið Markaðssetning gljúfraferða í Hornafirði.
Ljósmóðurneminn Heiðdís Anna
Marteinsdóttir hlaut 200 þús. kr. fyrir rannsókn um viðhorf og væntingar kvenna sem hafa reynsluþekkingu úr barneignarferlinu í Hornafirði.
Náttúrustofa Suðausturlands hlaut þrjá rannsóknarstyrki úr sjóðnum að þessu sinni. Verkefnið Aldursgreining gróðurleifa sem safnað hefur verið saman undan jökulsporði Breiðarmerkursands 270 þús. kr. Rannsókn stofunnar um lífsferil klettafrúr sömu styrkupphæð. Lífsferill klettafrúr á Íslandi er mikið til enn óþekktur og ekki er vitað hversu mörg ár plantan vex áður en hún blómgast og deyr. Kortlagning Stigár- og Hólárjökuls í sunnanverðum Öræfajökli, hlaut 200 þús. kr. en markmiðið með því að er að áætla hámarksútbreiðslu jöklanna á litlu ísöld.
Umhverfisviðurkenningar
Gunnlaugur Róbertsson, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, veitti umhverfisviðurkenningar fyrir hönd nefndarinnar. Tilgangur viðurkenninganna er að vekja íbúa sveitarfélagsins til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis fyrir samfélag og atvinnulíf.
Í ár voru veittar fjórar viðurkenningar.
Anna Ólöf Ólafsdóttir og Sigurjón Garðar Óskarsson hlutu viðurkenningu fyrir fallegan og snyrtilegan garð að Heiðarbraut 3 á Höfn.
Þrúðmar Þrúðmarsson og Ingibjörg Ævarr Steinsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir fallegt og snyrtilegt lögbýli. Á Hoffelli hafa þau Þrúðmar og Ingibjörg lagt mikið upp úr snyrtimennsku í kringum bæi sína sem bera þess merki.
Leik- og Grunnskólinn í Hofgarði hlaut viðurkenningu fyrir umhverfisvænar áherslur í fræðslustarfi. Í skólanum er mikið lagt upp úr virðingu við umhverfið og flokkun og sjálfbærri hugsun. Þar eru matarleifar ýmist jarðgerðar á staðnum eða nýttar sem hænsnafóður. Matjurtagarður þar sem börnin sá og árstíðarbundið hráefni úr náttúrinni nýtt til dæmis með því að tína ber og sveppi til matargerðar.
Umhverfis Hornafjörður hlaut viðurkenningu fyrir ötult starf í umhverfismálum með fræðslu og viðburðahaldi. Eitt helsta markmiðið er að mynda regnhlíf yfir þau verkefni sem þegar eru unnin í anda hringrásarhagkerfis innan sveitarfélagsins.
Styrkir nefnda og bæjarráðs
Alls bárust ellefu umsóknir um menningarstyrki, og eru þeir veittir félagasamtökum og einstaklingum til menningartengdra verkefna. Fram kom í máli Eyrúnar H. Ævarsdóttur að með þessum styrkjum vilji atvinnu- og menningarmálanefnd hvetja og styrkja félagasamtök og einstaklinga til frekari starfa í þágu menningar. Eftirtalin félagasamtök hlutu styrk að þessu sinni: Blús og rokkklúbbur Hornafjarðar, Gleðigjafar, Samkór Hornafjarðar, Karlakórinn Jökull, Kvennakór Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar, Lúðrasveit Hornafjarðar, MUUR, Tómas Nói Hauksson og Hlynur Pálmason.
Fræðslu- og tómstundanefnd veitti styrki til Hlaupahóps Hornafjarðar, Hestamannafélagsins
Hornfirðings og Foreldrafélags Sjónarhóls.
Bæjarráð veitti styrki til Gunnars Pálma Péturssonar til skráningar á akstursíþróttasögu þeirra feðga, Vigdísar Maríu Borgarsdóttur fyrir Flugdag á Humarhátíð, Skógræktarfélags Austur- Skaftafellsýslu fyrir viðhald á mannvirkjum. Þorsteinn Grétar Sigurbersson hlaut styrk fyrir kaup á nýjum ljósabúnaði í Vatnstankinn og Hirðingjarnir hlutu rekstrarstyrk.
Athöfnin var hátíðleg að vanda og hljómsveitin Fókus fluttu vel valin lög í tilefni dagsins og hituðu upp fyrir blúshátíð sem haldin var um helgina.
Öllum styrk- og verðlaunahöfum er óskað til hamingju.