Meistaraflokkur kvenna

0
553

Um liðna helgi kláraðist keppnissumar meistaraflokks kvenna. Þær enduðu mótið á góðri ferð norður til Akureyrar og unnu þar góðan sigur á Hömrunum 4 – 2. Samira Suleman og Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir skoruðu sitthvor tvö mörkin.
Deildarfyrirkomulagið í ár var ekkert til að hrópa húrra yfir. Þrettán lið skráðu sig til leiks og taldi Knattspyrnusamband Íslands það vera of mörg lið til að spila tvær umferðir og niðurstaðan sú að spiluð yrði einföld umferð – 12 leikir og í kjölfarið úrslitakeppni fyrir efstu fjögur liðin.
Eftir erfiða byrjun á tímabilinu náði liðið að stilla sig betur saman og seinni hluta sumars var uppskeran 13 stig í síðustu 6 leikjunum, sem skilaði liðinu í 7 sæti, ekki langt frá sæti í úrslitakeppninni.
Leikmenn liðsins eru að bæta sig og ungir leikmenn að fá mikilvæga reynslu í meistaraflokksfótbolta.
Ef horft er yfir sumarið og það borið saman við síðasta tímabil er Sindraliðið að gera betur á öllum sviðum. Skoruð mörk fóru úr 19 í 27, mörk fengin á sig úr 33 í 26 og stigafjöldi úr 11 stigum í 19.
Ef við höldum áfram að skoða tölfræði er annar punktur sem gaman er að benda á. Í sumar spiluðu 20 leikmenn fyrir meistaraflokk kvenna, af þeim 20 voru 14 leikmenn uppaldir hjá félaginu. Þetta sýnir okkur hversu öflugt starf hefur verið unnið hjá félaginu síðastliðin ár.
Meistaraflokkur kvenna vill þakka öllum þeim sem mættu á leiki í sumar og studdu við bakið á liðinu.
ÁFRAM SINDRI!