Lokahóf Golfklúbbs Hornafjarðar

0
357
Guðjón og Bergþóra voru valin bjartasta vonin í karla- og kvennaflokki

Lokamótin í mótaröð Medial og Prósjoppunnar voru haldin á laugardaginn og þá var jafnframt lokahóf GHH í Skálanum.
Enginn fór tómhentur heim og voru þeir sem ekki fengu verðlaun dregnir út svo allir fengu eitthvað fyrir sinn snúð.
Þá voru veittar viðurkenningar fyrir sumarið.
Róbert Marvin Gunnarsson og Halldór Sævar Birgisson fóru báðir holu í höggi og fengu viðurkenningu fyrir það.
Háttvísiverðlaun GHH fékk Anna Eyrún Halldórsdóttir, en hún er óþreytandi þegar kemur að því að leiðbeina, aðstoða og hjálpa öllum þeim sem á þurfa að halda innan klúbbsins. Hún gengur vel um völlinn, lagar kylfuför eftir sig og aðra, týnir rusl á vellinum og svona mætti lengi telja. Hún er vel að sér í golfreglunum og leggur sig fram um að þekkja þær, hún hefur tekið að sér liðsstjórn fyrir keppnislið kvenna í sumar og er almennt góð fyrirmynd fyrir aðra kylfinga.
Mótanefnd valdi Björtustu von GHH í kvenna- og karlaflokki. Það var mikil samstaða um það innan mótanefndar hverjir skyldu fá þessi verðlaun, enda hafa þau bæði lagt mikið á sig í sumar, spilað vel, lækkað mikið í forgjöf og eru á hraðri uppleið í golfinu.
Bjartasta von GHH í karlaflokki er Guðjón Björnsson.
Bjartasta von GHH í kvennaflokki er Bergþóra Ólafía Ágústsdóttir.
Um næstu helgi verður Sveitakeppni kvenna á Austurlandi haldin á Silfurnesvelli. Þrjú lið að austan mæta til leiks en auk þess verður GHH með tvö lið í keppninni. Í öðru liði GHH eru Jóna Benný Kristjánsdóttir, Bergþóra Ólafía Ágústsdóttir, Lilja Rós Aðalsteinsdóttir og Erla Þórhallsdóttir. Liðsstjóri er Anna Eyrún Halldórsdóttir. Í hinu liðinu eru Friðþóra Ester Þorvaldsdóttir, Sigríður Birgisdóttir, Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir, Jóna Margrét Jóhannesdóttir, Matthildur Ásmundardóttir og Alma Þórisdóttir. Liðsstjóri er Halldóra Katrín Guðmundsdóttir. Leiknar verða 5 umferðir og situr hvert lið hjá í einni umferð. Fyrsti leikurinn hefst kl. 7:30 á laugardagsmorgni og þá etja kappi lið GHH. Hægt verður að fylgjast með skorinu í beinni útsendingu og hvetjum við Hornfirðinga til að gera sér ferð í Skálann og fylgjast með en leikið verður frá morgni til kvölds bæði á laugardag og sunnudag.