Listamaður vikunnar – Höskuldur Björnsson

0
599

„Það var aldrei spurning um annað en að við þyrftum að sýna Höskuld samhliða Tilraun Æðarrækt,“ segir Snæbjörn Brynjarsson, safnvörður við Svavarssafn. „Höskuldur er merkasti fuglateiknari í íslenskri listasögu, frægðarsól hans reis ekki hátt, enda hlédrægur maður, en það segir sitt að enn þann dag í dag á hann fjölmarga, einlæga aðdáendur.“
Tilraun Æðarrækt sem var opnuð í september er samsýning með tuttugu og sex hönnuðum og listamönnum, og er verkefni sem staðið hefur yfir frá 2019, en þá tengdu Hildur Steinþórsdóttir og Rúna Thors æðarræktendur saman með listamönnunum. Niðurstaðan eru ýmis ólík verk sem innblásin eru af þessu nána sambýli manna og fugla.
Æðarfuglinn og æðarbændur eiga einstakt samband, byggt á vináttu og gagnkvæmu trausti, en það má segja að Höskuldur hafi nálgast fugla á svipaðan hátt og æðarbóndinn, sem vinur. Höskuldur fæddist í Dilksnesi við Hornafjörð 26. júlí 1907 en hélt til Reykjavíkur rétt fyrir tvítugt og fór þar á sína fyrstu málverkasýningu. sem var til minningar um Mugg. Á næstu árum eftir það lærði hann hjá Ríkharði Jónssyni og Jóni Stefánssyni og fór fljótt að sýna. Hann hugðist halda til Kaupmannahafnar ásamt æskuvini sínum, Svavar Guðnasyni, og leggja stund á listnám eins og hann, en fékk berkla skömmu áður en komið var að brottför. Því miður náði hann aldrei fullri heilsu, og ekkert varð af listnámi, en Höskuldur bjó á Höfn í Hornafirði og síðar Hveragerði. Hann giftist Hallfríði Pálsdóttur og þau eignuðust tvö börn, Halldór og Ingveldi, og hann gat sér gott orð sem næmur landslags- og fuglamálari. Oftar en ekki sótti hann yrkisefni sín á heimaslóðir í Hornafirði.
„Svavarssafn á margar fallegar myndir eftir Höskuld, sem hafa verið gefnar af velgjörðarfólki. En þessi hérna er með skemmtilega sögu,“ segir Snæbjörn og bendir á eina af æðarkollu og æðarblika sem hangir inni í Ástustofu. Búið var að velja fjögur flott verk til að setja upp í ráðhúsinu af æðarfuglum þegar Margrét Torfadóttir hafði samband við safnið og spurði hvort áhugi væri á að eignast verk eftir Höskuld Björnsson. Hún hafði keypt verkið á nytjamarkaði en fengið staðfest hjá Gallerí Fold að um væri að ræða pappírsverk eftir listmálarann. Við að sjálfsögðu sögðum samstundis já, en svo kom það í ljós að verkið sýndi æðarfugla á sundi og kom til okkar á sjálfum opnunardegi sýningarinnar.
„Mig grunar að parið hafi sennilega viljað fá að vera með á sýningunni og þess vegna ákveðið að láta uppgötva sig. En ég kann Margréti miklar þakkir fyrir gjöfina,“ segir Snæbjörn.
Hægt er að virða fyrir sér þessi verk og önnur eftir Höskuld í ráðhúsinu fram í janúar.