Lestrarhesturinn 2023

0
107

Nú í sumar var enn á ný haldið af stað með lestrarátakið LESTRARHESTURINN á bókasafninu okkar á Menningarmiðstöð Hornafjarðar, en öllum grunnskólabörnum gafst kostur á að taka þátt í átakinu. Eins og áður var lagt upp með að börnin lesi bækur yfir sumartímann og skrái upplýsingar um bækurnar á þar til gert þátttöku blað, sem þau svo skiluðu aftur til baka á bókasafnið. Eftir því sem þátttakandinn las meira því fleiri blöðum gat viðkomandi skilað inn. Í lok sumars var svo dreginn út einn vinningshafi sem fékk að launum gjafabréf hjá Pennanum Eymundsson, auk þess sem allir þátttakendur í Lestrarhestinum fengu bók að gjöf frá Menningarmiðstöðunni fyrir að taka þátt í átakinu með okkur í sumar.

Í ár tóku 17 börn þátt í Lestrarhestinum og voru þau yngstu 6 ára en þau elstu 10 ára. Sá þátttakandi sem las flestar bækur var enginn annar en Vilhjálmur Hauksson sem las hvorki meira né minna en 40 bækur í sumar en samtals lásu börnin yfir 220 bækur yfir sumartímann. VEL GERT!
Það vildi svo skemmtilega til að sá sem var dreginn út sem vinningshafi þetta sumarið var hann Vilhjálmur sem hlaut, eins og áður sagði gjafabréf frá Pennanum Eymundsson í verðlaun auk hinnar splunku nýju bókar „Spítalaráðgátan – Spæjarastofa Lalla og Maju“ sem allir þátttakendur í LESTRARHESTINUM fengu gefins.

TIL HAMIGNJU KRAKKAR OG TAKK FYRIR AÐ TAKA ÞÁTT Í LESTRARHESTINUM 2023.

Sandra Björg Stefánsdóttir
Bókavörður á Menningarmiðstöð Hornafjarðar