Lesið í landið – Vinnustofa og málþing í Suðursveit 1. mars

0
1460
Mynd frá Kambtúni. Ljósmyndari: Hjörleifur Guttormsson

Lesið í landið heitir vinnustofa á vettvangi sem fer fram föstudaginn 1. mars kl. 13 í Suðursveit þar sem verbúðir voru á 16. öld í Kambstúni vestan við Hestgerðiskamb. Vinnustofunni stýrir Þuríður E. Harðardóttir, minjavörður Austurlands. Meðal þess sem kennt verður í vinnustofunni er hvernig hægt er að nýta snjallsíma til að skrásetja menningarminjar.
Eftir að vinnustofunni lýkur verður haldið lítið málþing í Þórbergssetri á Hala kl. 15 þar sem Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, mun segja frá CINE-verkefninu sem nýtur styrks úr Norðurslóðaáætlun ESB og Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur mun fjalla um fornar ferðaleiðir milli Héraðs og Suðursveitar en Skriðuklaustur átti til forna útræðið við Hálsahöfn.
Vinnustofan og málþingið eru hluti af CINE-verkefninu sem snýst um að skrá og miðla menningararfi með nýjustu tækni og margmiðlun. Gunnarsstofnun og Locatify eru íslenskir aðilar að verkefninu en með aukaaðild eru: Minjastofnun Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður, Óbyggðasetrið og Fljótsdalshreppur. Samstarfsaðilar vegna þessara viðburða í Suðursveit eru Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Þórbergssetur.
Nánari upplýsingar veitir Skúli Björn Gunnarsson í síma 860-2985 eða netfang skuli@skriduklaustur.is