Leitum lausna  

0
1042

Staðan á húsnæðismarkaði

Húsnæðismál eru mál málanna – eðlilega þar sem húsnæði er eitt að grunnþörfum hvers einstaklings. Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er óstöðugur og óöruggur. Framboð leiguhúsnæðis er lítið og leiguverð hefur því rokið upp.

Svissneska leiðin

Framsókn vill að ungu fólki verði heimilt að taka út iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Þessi leið hefur verið farin í Sviss til fjölda ára með góðum árangri. Með þessari leið er hluti lífeyrissjóðs nýttur sem útborgun og þarf því ekki að greiða vexti til bankanna inn á lán að þeirri fjárhæð. Þegar íbúðin er seld er iðgjaldinu skilað aftur inní lífeyrissjóðinn þá hefur eignin í íbúðinni aukist og gæti viðkomandi þá jafnvel greitt meira til baka en tekið var til útborgunar í upphafi.

Allt á sama tíma

Á sama tíma og ungt fólk er að stofna fjölskyldu og eignast þak yfir höfuðið er endurgreiðsla námslána oft þungur baggi. Framsókn vill að ungt fólk geti frestað afborgunum á námslánum sínum í fimm ár við kaup á fyrstu íbúð.

Hreyfing á húsnæðismarkað

Framsókn vill auðvelda öldruðum að minnka við sig húsnæði og koma með því hreyfingu á húsnæðismarkaði með uppbyggingu á 300 hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða árlega næstu árin. Aldraðir eiga þá aukinn möguleika á að komast í öruggara og hagkvæmara húsnæði.

Leitum lausna og búum til stöðuleika í samfélaginu. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Sigurður Ingi Jóhansson formaður Framsóknarflokksins
1. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi

Ásgerður K. Gylfadóttir hjúkrunarstjóri og bæjarfulltrúi,
3. Sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi