Leitin að því liðna

0
888

Stutt málþing verður haldið í Þórbergssetri laugardaginn 1. nóvember og hefst kl 13:30. Fjallað verður um rannsóknir sem unnið hefur verið að á liðnum árum í samstarfi við Þórbergssetur.
Fornar sagnir um sjóróðra í Suðursveit hafa vakið forvitni vísindamanna og fundist hafa heimildir um tengingu Skriðuklausturs við Borgarhöfn í Suðursveit og ferðir vermanna yfir jökul fyrr á öldum. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur sendi enskt rannsóknarteymi í Kambstún í september í haust með jarðsjá til að reyna að finna minjar um vetursetu vermanna þar. Einnig hefur Skúli Gunnarsson forstöðumaður Skriðuklausturs unnið að rannsóknum á leiðinni úr Fljótsdal yfir jökul. Hann hefur m.a. starfað með skoskum háskóla og nýtt nýjustu tækni svo sem drónamyndatöku til að freista þess að finna göturnar við Hálsatind, sem sagt er frá í bók Guðmundar J. Hoffell og voru þar vel sýnilegar um aldamótin 1900. Hann hefur einnig verið í samstarfi við Jarðvísindastofnun varðandi stærð og legu Vatnajökuls á árunum 1000 – 1500. Það verður því forvitnilegt að hlýða á fyrirlestur Skúla og hvers hann hefur orðið vísari í leit sinni um tengsl Skriðuklausturs við Suðursveit fyrr á öldum.
Vísindamenn fortíðar voru gjarnan þeir sem byggðu þetta land á öldum áður, bændur sem þekktu vel umhverfi sitt og lásu af mikilli nákvæmni í landið, náttúrufar og breytingar á umhverfi. Snævarr Guðmundsson jöklafræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands og Fjölnir Torfason á Hala hafa undanfarið leitað að vörðum jöklamælingamanna sem fóru ár hvert út á Breiðamerkursand á árunum 1932 og fram yfir 1950 og mældu hop Breiðamerkurjökuls. Snævarr mun á málþinginu segja frá þessari leit þeirra félaga á Sandinum og minnast þeirra manna er þarna lögðu vísindunum lið svo og sýna niðurstöður þeirra með nútíma tækni. Þessar rannsóknir birtast nú sem mikilvægar upplýsingar um hopun Breiðamerkurjökuls á tuttugustu öldinni.
Þórbergssetur er staðsett í landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar og það má teljast merkilegt á heimsvísu að eiga skráða sögu fyrsta mannsins sem bjó í landi Breiðabólsstaðar og settist hér að fyrir meira en 1100 árum síðan. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir rölti um hluta af landnámi Hrollaugs síðast liðið sumar og skráði niður örnefni og líklegar fornleifar og menningarminjar sem tengjast þessari 1100 ára búsetu á Breiðabólsstaðartorfunni. Hún ætlar að segja okkur frá þessari vinnu sinni sem er reyndar ekki að fullu lokið, en gefur okkur samt hugmynd um hversu mikil auðlegð felst í staðbundinni þekkingu heimamanna, sem okkur ber sannarlega skylda til að varðveita sem hluta af sögu okkar sem þjóðar.
Ragnhildur Jónsdóttir og Grétar Vilbergsson komu fyrr á þessu ári færandi hendi í Þórbergssetur, er þau komu með að gjöf gömul blöð Eystrahorns innbundin í fallegar bækur. Þar má finna margar skemmtilegar frásögur frá liðinni tíð. Í lok málþingsins verður gluggað í gömul blöð Eystrahorns og lesnar upp stuttar greinar sem varpa ljósi á mannlíf í Suðursveit fyrir ekki svo löngu síðan. Þannig er líf okkar orðið að sögu áður en við vitum af, hver mannsævi skammlifuð stund, hvert og eitt mörkum við okkar spor sem vonandi hverfa ekki öll í gleymskunnar dá í framtíðarlandinu, því þá um leið glötum við menningu okkar og sögu sem þjóðar.
Allir eru velkomnir að koma og eyða dagstund í Þórbergssetri

Þorbjörg Arnórsdóttir