Leikfélag Hornafjarðar

0
440

Starfið veturinn 2022 – 2023

Leiklistarstarfið fór vel af stað í vetur hjá okkur í Leikfélagi Hornafjarðar. Leikfélag Hornafjarðar á sér langa sögu og á síðastliðnu hausti fagnaði það 60 ára afmæli sínu. Afmælið var haldið hátíðlegt með uppsetningu á leikverkinu Hvert örstutt spor í leikstjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar, í samstarfi við FAS. Leiksaga félagsins er fjölbreytt og mörg verk hafa verið sett upp á síðastliðnum 60 árum. Stundum tvær leiksýningar á ári.
Á þessu leikári höfum haft einkargóða samstarfsaðila og höldum áfram að vinna í samstarfi við aðra eftir áramót. Í sumar stóð leikfélagið fyrir leiklistarnámskeiðum fyrir börn og ungmenni í samstarfi við Smáleikhúsið.
Á degi íslenskrar tungu fór fram leiklestur í Svavarssafni á leikverkinu Gullna Hliðið eftir Davíð Stefánsson. Verkið var gert í samstarfi við Menningarmiðstöðina og undir leiðsögn Snæbjarnar Brynjarssonar. Hægt er að nálgast streymið á facebook síðu leikfélagsins og á vef menningarmiðstöðvarinnar.
Í nóvember settum við upp eins dags leikverk í samstarfi við Smáleikhúsið en það voru Aron Martin Ásgerðarson og Elísabet Skagfjörð sem stóðu með okkur að þeirri sýningu, ásamt leikurum úr leikfélaginu. Sýningin var upplifunarleikhús sem bar nafnið Hel og heim aftur. Leikverkið fór fram í gömlu sundlauginni við mjög góðar undirtektir.
Eftir áramót höldum við í hefðirnar og vinnum leikverk í samstarfi við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu. Leikverkið sem varð fyrir valinu þetta árið er söngleikurinn Galdrakarlinn í Oz sem mun án efa heilla fólk á öllum aldri. Vala Höskuldsdóttir mun leikstýra verkinu. Vala er leikstjóri og sviðshöfundur fædd og uppalin á Akureyri. Hún er söngelsk og sumir kannast mögulega við lög og ljóð hennar með Hljómsveitinni Evu. Vala hefur meistaragráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands og er að ljúka kennsluréttindum frá sama skóla. Hún er mikil landsbyggðakona í hjartanu, að eigin sögn, og getur ekki beðið eftir því að koma til Hornafjarðar, kynnast þar samfélaginu og skapa eftirminnilega sýningu með heimafólki.
Það er sannarlega ánægjulegt fyrir hvert sveitarfélag að eiga öflugt leikfélag, en alls ekki sjálfgefið. Síðustu 60 árin hefur Leikfélag Hornafjarðar markað djúp spor í menningar- og skemmtanalífi Hornafjarðar. Við sem störfum með Leikfélagi Hornafjarðar erum fullviss að leikfélagið eigi stór menningarleg spor hér í sveitarfélaginu. Grunnur þess er samstarf margra ólíkra einstaklinga sem hafa náð að gera þrekvirki með áhuga og viljann að vopni. Samstarfið við framhaldsskólann hefur einnig verið ósköp gott og gleðilegt. Það hefur gefið áhugasömum framhaldsskólanemum tækifæri til að fá útrás fyrir sköpunargáfuna og kynnast heimum leiklistarinnar. Þá er líka bara svo rosalega skemmtilegt að koma sem gestur í leikhúsið og gleyma sér í hinum ímyndaða heimi um stund.
Við sem myndum stjórn leikfélagsins þetta leikárið erum spennt fyrir komandi tímum og þeim spennandi verkefnum sem við munum koma að ásamt öðrum. Allir áhugasamir þátttakendur eru hvattir til að setja sig í samband við okkur og vera með. Við hlökkum til að sjá Hornfirðinga fjölmenna á leiksýningar á næsta ári. Sjáumst í leikhúsinu!