Kvikmyndagerð á Stekkakletti

0
4784

Undirbúningur fyrir næstu kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd er hafinn og eru miklar framkvæmdir farnar af stað í húsinu við Stekkaklett sem verður aðal tökustaður myndarinnar. Kvikmyndin ber titilinn Hvítur, hvítur dagur en í grófum dráttum fjallar hún um lögreglustjóra í litlu sjávarþorpi sem verður heltekinn af þráhyggju yfir að ná manninum sem grunaður er um að hafa orðið konu hans að bana. Með tímanum breytist þráhyggja hans í algjöra firringu, hann missir tökin á sjálfum sér sem óhjákvæmilega bitnar á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd, tryggð, fórn, bernsku og skilyrðislausa ást. Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverkið en í aukahlutverkum verða fleiri þjóðþekktir leikarar og vonandi einhverjir áhugasamir á staðnum, en auglýst verður eftir þeim á næstunni. Hlynur segir að umfang á kvikmynd eins og Hvítur, hvítur dagur sé yfir 300 m.kr.  og næsta verkefni þar á eftir verði ekki umfangsminna.

Í kjölfar velgengni Vetrarbræðra

Kvikmyndin er samvinna milli Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar og Frakklands, en í kjölfar velgengni Vetrarbræðra hefur fjármögnun og undirbúningur að næstu kvikmyndum gengið afar vel og í því felast sóknarfæri. Hin dansk/íslenska kvikmynd Vetrarbræður vann nýverið til tvennra verðlauna þar sem hún var valin besta kvikmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Kænugarði í Úkraínu, og var Hlynur valinn besti leikstjórinn á Transilvaníu kvikmyndahátíðinni í Rúmeníu. Vetrarbræður hefur nú unnið til yfir 30 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss í ágúst síðastliðnum, þar sem myndin hlaut fern verðlaun. Hún hefur auk þess verið seld til yfir tuttugu landa og verður sýnd í bíóhúsum í Bandaríkjunum í júní, og verður þá frumsýnd á listasafninu MoMa í New York.

Leikmynd að íverustað?

Hlynur hefur áform um að nýta byrinn til að byggja upp starfsemi tengdri alþjóðlegri kvikmyndagerð hérna í Hornafirði. Um er að ræða uppbyggingu á aðstöðu til eftirvinnslu kvikmynda og gæti kvikmyndagerðafólk þá unnið lokaferli framleiðslunnar hér á staðnum. Hlynur segir Hornafjörð afar heppilegan stað til þess, þar sem fólk geti í friði og ró lagt lokahönd á verkin sín umvafið náttúrufegurð, kyrrð, góðum mat úr héraði ásamt ótal möguleikum til útivistar af ýmsum toga. Hann hefur áhuga á að taka Stekkaklett, þar sem núna er verið að setja upp leikmynd fyrir Hvítan, hvítan dag, á leigu af sveitarfélaginu næstu sjö árin, og koma þar fyrir aðstöðu til eftirvinnslu kvikmynda. Þegar eftirvinnslan væri fullbúin gætu fimmtán kvikmyndir í fullri lengd frá öllum heimshornum farið í gegnum eftirvinnsluna á Stekkarkletti á ári hverju, og myndi það skapa afar jákvæða ímynd af sveitarfélaginu okkar, laða að íbúa og gesti og auka fjölbreytni í menningu, mannlífi og atvinnu. Hlynur er þakklátur aðkomu sveitarfélagsins sem hefur stutt við kvikmyndina með því að leyfa honum að nýta húsið fyrir tökur og borga hluta af breytingunum á húsinu. Samningaviðræður varðandi leigu á húsinu og hvernig nýta megi staðinn að tökum loknum vonast Hlynur til að þokist í rétta átt með nýrri bæjarstjórn og breyttum áherslum.

Alþjóðleg kvikmyndagerð í Hornafirði

Hlynur segir að það sé verið að byggja upp mikið kvikmyndaþorp í Gufunesinu í Reykjavík og væri auðveldlega hægt að vera með aðstöðu þar. Hins vegar sé það draumurinn að byggja upp minni og persónulegri eftirvinnslu hérna heima í Hornafirði, þar sem unnið er náið með kvikmyndagerðafólki á einstökum stað, með þeim samböndum sem hafa myndast vegna velgengni Vetrarbræðra.
Þessi uppbygging þarf tíma til að vaxa og þroskast og því er nauðsynlegt að gefa sér nokkur ár til að láta á þessa hugmynd reyna. Þess vegna hafi hann óskað eftir að ganga til samninga við sveitarfélagið um afnot af húsinu til næstu sjö ára.  Hann segir að það sé mikilvægt fyrir blómstrandi samfélag að hafa kröftugt menningarlíf og þessvegna þurfi að styðja við frumkvöðla í menningartengdri starfsemi. Kvikmyndir séu eitt stærsta listform tuttugustu og fyrstu aldarinnar og mikill menningararfur í henni fólginn.