Körfuknattleiksdeild Sindra

0
299
Einn af yngri flokkum Sindra í körfubolta

Það má með sanni segja að körfuboltinn hafi farið af stað með látum þetta tímabilið. Mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár og er hún að skila því að aldrei hafa fleiri börn æft körfubolta á Höfn. Meistaraflokkur karla er sem stendur í öðru sæti 1. deildar aðeins tveimur stigum á eftir Álftanesi sem situr í fyrsta sæti. Lið Sindra gerði sér þó lítið fyrir og sigraði Álftanes í Ice lagoon höllinni síðastliðinn föstudag þar sem stemningin var gríðarleg í stúkunni. Heimavöllurinn hefur verið algjörlega frábær það sem af er tímabili og hafa á bilinu 130 – 200 manns mætt á leikina og er umtalað hve erfitt sé að mæta Sindra á heimavelli.
Umgjörðin utan um körfuboltann er mikil og eru starfandi tvær stjórnir, stjórn meistaraflokks karla og stjórn yngri flokka sem stofnuð var í haust og er skipuð 6 stjórnarmönnum sem komu inn með miklum krafti. Í stjórn meistaraflokks sitja Elías Tjörvi Halldórsson, Skúli Ingibergur Þórarinsson, Þorgrímur Tjörvi Halldórsson, Björgvin Hlíðar Erlendsson og Jakob Guðlaugsson. Í yngri flokka stjórn sitja Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, Janine Arens, Finnur Smári Torfason, Guðrún Erla Sumarrós Víðisdóttir, Sigrún Ólöf Björgvinsdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson. Fjárhagur meistaraflokks og yngri flokka er algjörlega aðskilinn en stjórnirnar vinna mikið saman og hefur samvinnan gengið afar vel. Deildin hefur fengið hrós fyrir hversu vel er haldið utan um heimaleiki og hversu vel sé gert við yngri flokka á þeirra leikjum. Þá er deildin einu skrefi frá því að geta sótt um að verða fyrirmyndardeild ÍSÍ og vonumst við eftir því að geta tekið við þeirri viðurkenningu fyrripart nýs árs.
Yngriflokkastarfið hefur verið á blússandi siglingu síðustu ár. Alls eru 6 hópar sem æfa, allt frá leikskólabörnum upp í 15. ára aldur. Hjá yngriflokkum starfa 8 þjálfarar og tveir til viðbótar aðstoða í leikskólaboltanum. Deildin leggur upp með að það séu alltaf tveir þjálfarar á hverri æfingu til þess að auka gæði og umgjörð æfinganna. Allir þjálfarar fyrir utan þá þrjá sem eru að stíga sín fyrstu skref sem aðstoðarþjálfarar, eru með háskólamenntun og/eða þjálfaramenntun í körfubolta frá KKÍ eða erlendis frá. Deildin er því afar rík hvað varðar gæði þjálfara og hefur það sýnt sig á þeim mótum sem yngri flokkar hafa tekið þátt í það sem af er vetri, þar sem börnin hafa staðið sig með mikilli prýði. Umtalað hefur verið þar sem liðin mæta hversu miklum framförum liðin hafa tekið og hversu vel börnin eru að spila. Þá er einnig mikil áhersla lögð á þann uppeldisþátt að virðing sé í hávegum höfð, hvort sem það sé innan vallar eða utan.

Þjálfarar körfuknattleiksdeildar Sindra

Aðeins um þjálfarana okkar

Israel Martin þjálfari meistaraflokks karla sinnir starfi yfirþjálfara yngriflokka sem og að þjálfa tvo elstu flokkana. Israel er þrautreyndur þjálfari. Hann er með hæstu gráðu þjálfaramenntunar og hefur meðal annars starfað sem þjálfari í FIBA Europe cup og verið aðstoðarþjálfari hjá landsliði í Danmörku þar sem hann var einnig valinn þjálfari ársins. Þá viðurkenningu hefur hann einnig hlotið tvisvar sinnum hér á Íslandi. Hann er þjálfari U18 og U20 landsliða Íslands ásamt því að þjálfa hjá Sindra. Israel fluttist til Íslands með fjölskyldu sinni árið 2014 og þjálfaði á Sauðárkróki og hjá Haukum áður en hann koma til okkar í Sindra. Guillermo Sánchez heldur utan um þjálfun barna á aldrinum 8 – 11 ára sem og að sinna styrktarþjálfun elstu flokkanna. Hann er leikmaður meistaraflokks Sindra og kemur frá Spáni en síðastliðin 6 ár hefur hann spilað og þjálfað yngriflokka í Salzburg í Austurríki við góðan orðstír. Hann er menntaður íþróttafræðingur með mastersgráðu í stjórnun innan íþróttahreyfinga sem og réttindi og þjálfaragráðu í körfubolta. Kristján Örn Ebenezerson heldur utan um og stýrir þjálfun yngstu barnanna. Kristján hefur þjálfað fyrir körfubolta deildina í mörg ár og hefur mikla reynslu sem þjálfari auk þess að vera menntaður íþróttakennari og íþróttasálfræðingur. Þeim til aðstoðar eru Auðunn Hafdal, Margrét Kristinsdóttir, Oscar Alexander Teglgård Jørgensen, Rimantas Daunys, Kacper Ksepko, Hilmar Óli Jóhannson og Maríus Máni Jónsson. Auk þeirra þjálfara sem starfa hjá yngri flokkum starfa hjá meistaraflokki þau Auðunn Hafdal, aðstoðarþjálfari og Svafa Mjöll Jónasar en hún sinnir styrktarþjálfun.
Í október héldum við okkar árlega yngriflokkamót Nettó fyrir börn á aldrinum 6-11 ára sem þótti takast afar vel. Á mótið komu lið frá Egilsstöðum, Breiðdalsvík og Kirkjubæjarklaustri og Vík og var virkilega gaman að sjá liðin koma svona langt að og hversu mikið mótið hefur vaxið á síðustu árum. Önnur lið sýndu mótinu einnig áhuga og er það víst að við eigum fullt erindi í að halda stærri mót í framtíðinni. Það er því virkilega gaman að sjá körfuboltalífið á Höfn vaxa og dafna og hversu frábær skemmtun er að mæta í Ice lagoon höllina og sjá meistaraflokk karla spila fyrir fullri stúku. Liðið er einkar vel samsett af gæða leikmönnum sem eru frábærar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur okkar. Við hvetjum því alla til þess að mæta í Ice lagoon höllina næst komandi föstudaginn þegar Sindri tekur á móti ÍA og upplifa þá frábæra stemningu og skemmtun sem strákarnir okkar bjóða upp á. Einnig tökum við fagnandi á móti þeim sem vilja gerast sjálfboðaliðar fyrir deildina og vinna að ýmsum verkefnum með okkur og að sjálfsögðu þeim sem vilja styrkja deildina að einhverju leyti.
Sjáumst í Ice lagoon höllinni – Áfram Sindri!