Körfuboltinn í gang á ný

0
2063
Auðunn Hafdal með 1. bekk Grunnskóla Hornafjarðar.

Haustið er komið og það þýðir að körfuboltinn er að byrja nýtt tímabil! Spennandi tímar framundan þar sem meistaraflokkur karla unnu sig upp um deild á síðustu leiktíð og halda nú í 2. deild með há markmið um að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Nánar tilteki: sigrar og upp um enn aðra deild! Ásamt því að trúa á okkur sjálf hefur Pakkhúsið og Jökulsárlón ehf. sýnt að þau trúa einnig á okkur, og undirritaður var samstarfs- og styrktarsamningur til þriggja ára, því til sönnunar. Auk þeirra eru JM hár, Límtré- Vírnet og Kaffihornið stoltir styrktaraðilar deildarinnar. Lítil deild með mikinn metnað krefst góðs baklands og erum við einstaklega þakklát þeim sem sýna stuðning sinn í verki.
Til þess að efla góðan meistaraflokk þarf að huga að yngri flokkum sem koma til með að taka við. Sem hluti af þeirri uppbyggingu fór yngri flokka þjálfari vetrarins, Auðunn Hafdal í Grunnskóla Hornafjarðar og kynnti starf vetrarins. Auk þess gaf hann körfubolta í alla bekki sem krakkarnir geta notað á skólatíma. Yngra flokka starfið er í góðum farvegi, efnilegir leikmenn að líta dagsins ljós, en mikilvægast af öllu er – það er gaman !