Knattspyrnudeild Sindra

0
195

Knattspyrnusumarið blómstraði og léku stelpurnar okkar í 2.deild þar sem var spiluð einföld umferð og var deildinni svo skipt upp þar sem efstu 6 liðin léku einfalda umferð og neðstu 6 liðin léku einnig einfalda umferð. Sindrastelpur höfnuðu í 8. sæti eftir fyrri umferðina og kepptu því í neðri hlutanum. Þar enduðu þær í 3ja sæti sem er vel ásættanlegur árangur þar sem liðið okkar er ungt og margar stelpur að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Kristín Magdalena Barboza, ein af okkar efnilegu ungu leikmönnum var svo valin í U15 landsliðið þar sem hún lék með liðinu í keppni í Póllandi í byrjun október.
Sindra strákarnir urðu deildarmeistara og tryggðu sér sæti í 2. deild á næsta tímabili eftir ansi dramatískar lokamínútur þar sem beðið var eftir úrslitum í leik Dalvíkur/Reynis – Augnabliks sem endaði með jafntefli og þar með var 1.sæti í riðlinum staðreynd! Okkar eini sanni Albert Eymundsson afhenti strákunum bikarinn fyrir hönd KSÍ og ánægjan skein af þjálfurum og leikmönnum að uppskera eftir mikla vinnu í sumar. Fram undan er því spennandi og krefjandi verkefni ársins 2023.
Yngri flokkarnir stóðu sig einnig frábærlega í sumar og komu 4.fl kvenna og karla heim með verðlaun af ReyCup en stelpurnar komu heim með gullið og strákarnir bronsið.
Knattspyrnuskóla Jako & Nettó var svo haldinn helgina 9.-10.desember en alls voru um 80 krakkar sem skráðu sig til leiks!
Knattspyrnuskólinn er byggður upp á að fá inn góða gestaþjálfara sem setja upp tækniæfingar fyrir krakkana og stýra svo æfingunum ásamt þjálfurum Sindra. Í gegnum tíðina höfum við fengið til okkar frábæra þjálfara líkt og fyrrum landsliðsþjálfara Heimi Hallgrímsson og fleiri. Í ár var engin breyting þar á en gestaþjálfarar voru þeir Nihad „Cober“ Hasicic og Milan Stefán Jankovic. Þeir félagar hafa vakið mikla athygli á landsvísu fyrir frábærar einstaklingsæfingar og eru þeir yfir akademíu knattspyrnudeildar Grindavíkur.
Helgin var frábær í alla staði og það var gaman að fylgjast með framtíðar leikmönnum Sindra sem æfðu vel í takt við góða jólaskapið. Það liggur fyrir að Knattspyrnuskólinn er mikilvægur viðburður í starfi okkar og að hann sé kominn til að vera.