“Kirkjan ómar öll, býður hjálp og hlíf”

0
608
Hafnarkirkja nýmáluð

Það hefur væntalega ekki farið framhjá fólki að viðhald Hafnarkirkju hefur verið ábótavant um tíma en nauðsynlegu viðhaldi utanhúss er nú lokið að sinni. Jafnframt hefur tilfallandi viðhaldsverkefnum verið sinnt ásamt því að bætt var við upptöku- og útsendingatækin.
Kostnaður vegna þessa hleypur á milljónum eða yfir fjórar milljónir króna. Þótt tekist hafi að fá einstaka styrki sem boðið er uppá hjá sjóðum þjóðkirkjunnar vegna verkefna eins og þessara dugar það skammt.
Frá því að undirritaður kom að málefnum kirkjunnar fyrir rúmum áratug hafa tekjur hennar verið skertar, sem nemur um 50% í dag, og munar um minna. Við þessar aðstæður var óhjákvæmilegt að segja kirkjuverði upp störfum. Í eitt og hálft ár hefur öll umsjón með kirkjunni og athöfnum ásamt þrifum verið unnin í sjálfboðastarfi. Þrátt fyrir það hefur ekki náðst að safna fyrir áðurnefndum framkvæmdum.
Starfsemi kirkjunnar verður ekki rekin til frambúðar á þennan hátt og það er alveg ljóst að í framtíðinni þarf að bæta rekstrargrundvöllinn ef halda á úti óbreyttri starfsemi á sómasamlegan hátt. Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar þar um sem ég tíunda ekki að sinni.
Margar dýrmætustu stundir og minningar í lífi okkar tengjast kirkjulegum athöfnum s.s. skírnum, fermingum og giftingum. Okkur finnst mikilvægt að útfarir og minningarathafnir ástvina geti farið virðulega fram og ákveðinn myndugleiki sé um allt starfið ásamt notalegri og snyrtilegri umgjörð. Sömuleiðis fer fram fjölbreytt starfsemi í kirkjunni og safnaðarheimilinu s.s. kóræfingar Samkórsins, Karlakórsins o.fl., AA-fundir, Vinir í bata/12sporin, foreldramorgnar, tónleikar o.fl.
Tilefni þessa skrifa minna nú, fyrir hönd sóknarnefndar, er að leita til sóknarbarna, velunnara og annarra aðila sem eru tilbúnir að styrkja framkvæmdirnar með fjárframlagi. Fyrir sóknina kemur allt sér vel og hér á við eins og alltaf að margt smátt gerir eitt stórt.
Sóknin hefur notið góðs af stuðningi ýmissa aðila og einstaklinga í gegnum árin sem jafnvel hefur skipt sköpum um reksturinn og þakka ber það enn og aftur.

Þeir sem vilja styrkja málefnið geta lagt inn á reikning sóknarinnar í Landsbankanum
Kt. 590169 – 7309
Rnr. 0172 – 05 – 61552

Með fyrirfram þakklæti.
F.h. Sóknarnefndar Hafnarsóknar
Albert Eymundsson formaður