Keppni aftur af stað hjá yngri flokkunum

0
517

Það voru spenntir drengir í fjórða og fimmta bekk sem brunuðu til Reykjavíkur um helgina til að reima á sig körfuboltaskóna og klæða sig í Sindrabúninginn í fyrsta skipti í ár í alvöru kappleik. Tilefnið var fyrsta umferð í Íslandsmóti drengja 10 ára og yngri á keppnistímabilinu sem haldin var í Hertz-helli ÍR-inga.
Sindri sendi tvö lið að þessu sinni, en alls voru 47 sem voru skráð til keppni. Skemmst er frá því að segja að Sindramenn stóðu sig með prýði, bæði liðin unnu þrjá leiki og töpuðu einum og höfnuðu í öðru sæti í sínum riðlum. Þetta þýðir að liðin halda sér í sínum styrkleika og eiga góða möguleika og komast upp um flokk ef menn halda áfram að bæta sig fyrir næsta mót.
Drengirnir voru til sóma innan sem utan vallar og skein leikgleðin og keppnisskap úr hverju andliti og greinilegt að þjálfararnir Gísli Þórarinn Hallsson og Arnþór Fjalarsson höfðu góð áhrif á drengina.