Jólavættir og ratleikur á Höfn

0
1026
Daníel Snær Garðarsson, Saga Skrýmisdóttir og Selma Ýr Ívarsdóttir

Ljóst er að hefðbundinn jóla­undirbúningur og jafnvel jólahaldið sjálft verði nú með nýju sniði. Mikil óvissa hefur einkennt misserið og margt farið fram á annan hátt en áætlað var. Vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda hefur aðventuhátíð Menningarmiðstöðvar verið aflýst, en ekki er öll nótt úti. Óvenjulegir tímar kalla á óvenjulega nálgun sem getur skapað skemmtilegt nýnæmi. Því ætlar Menningarmiðstöðin að færa jólastemninguna út í þorpið og hefur fengið til liðs við sig unga og efnilega hornfirska listamenn. Selma Ýr Ívarsdóttir, Daníel Snær Garðarsson og Saga Skrýmisdóttir hafa endurskapað forna vætti, fært þær til byggða og sveipað sönnum jólaanda.
Jólavættirnar eru sex talsins og munu birtast ein af annarri í gluggum og á húsveggjum víða um Höfn. Það er því kjörið að fara saman í gönguferðir um bæinn og svipast um eftir þessum óvæntu jólagestum. Yngri kynslóðinni gefst kostur á að taka þátt í ratleik þar sem þau finna og skrá allar vættirnar og staðsetningu þeirra. Svörin má senda á Menningarmiðstöð í Facebook skilaboðum eða koma á bókasafnið og fylla út þátttökuseðil. Dregið verður úr réttum svörum á þrettándanum (6. janúar 2021) og þrenn verðlaun verða veitt. Um heppna vinningshafa verður tilkynnt á Facebook síðu Menningarmiðstöðvar.
Um leið og jólavættirnar afhjúpa sig og koma Hornfirðingum í hátíðarskap mun þeim einnig verða ljóst hversu hæfileikaríkir listamenn eru að vaxa hér úr grasi. Vættirnar eru hand- og höfundarverk þessara listamanna og Menningarmiðstöðin þakkar Selmu, Sögu og Daníel hjartanlega fyrir að glæða þær lífi með svo metnaðarfullum hætti. Það er von okkar að framtakið hvetji til útivistar og samveru á aðventunni og skapi samtal um íslenska sagnahefð og jólahald.

Megi allar góðar jólavættir vaka yfir Hornfirðingum og lýsa upp svartasta skammdegið.

Gleðilega aðventu!