Jólaminningar

0
525
Ég stend hér fyrir framan Mumma bróður, þá Sigurgeir á Austurbænum og amma Ingibjörg Þorsteinsdóttir. Olga systir situr í vagninum.

Með kveðju til eldri Hornfirðinga

Þegar ritstjóri Eystrahorns fór þess á leit við mig að ég sendi grein frá Félagi eldri Hornfirðinga í jólablaðið sá ég að lítið var til að skrifa um síðan ég tók við formennsku í félaginu 6. júní. Starfsemin hefur einkennst af covid-19 og lítið sem ekkert verið hægt að gera af hefðbundnu starfi, ekki má hittast og fólk heldur sig að mestu heima. Nú verður engin jólasamvera, engir jólatónleikar, engin spilamennska og sennilega ekkert þorrablót svo fátt eitt sé talið. Það er því nánast ekkert í starfi félagsins til að skrifa um og er það ömurlegt hlutskipti fyrir nýjan formann.

Fjöldasöngur á jólasamveru í Ekru 2015

Nú er fólk beðið um að halda hófstillt jól með ekki öðrum en nánustu fjölskyldu. Gleymum samt ekki þeim sem eru einmana. Nú getum við notað símann og aðra nútímatækni til að hafa samband við fólk í öðrum landshlutum og jafnvel landa á milli.
Hugurinn leitar nú til bernsku minnar því þá var það einmitt líkt þessu í sveitinni, fámenn og hófstillt jól að mestu leyti og enginn kvartaði yfir því enda þekktist ekki annað.
Til að verða við beiðni ritstjórans og skrifa eitthvað þá ákvað ég að rifja upp nokkur minningabrot bernsku minnar um jólaundirbúninginn og jólin í þá daga í þeirri von að einhverjir hafi gaman af að lesa þessi brot.


Ég er fædd og uppalin á Skálafelli í Suðursveit, næstelst 6 systkina og var því snemma vel liðtæk í jólaundirbúningnum og bý enn að þeirri reynslu.
Í mínum huga var þetta notalegur tími. Loftljós komu frá geymi og svo voru gaslampar, olíulampar, kerti og vasaljós. Það voru saumuð jólaföt t.d. 4 kjólar allir eins á okkur systur, mikið bakað m.a. hálfmánar, vanilluhringir, gyðingakökur, serenukökur og fleira, og svo var hreingert, allt var þetta gert rétt fyrir jólin. Skreytt var á Þorláksmessu en jólatréð ekki fyrr en við börnin vorum sofnuð, við sáum það svo ekki fyrr en á aðfangadagskvöld. Mér fannst það alltaf hátíðleg byrjun á jólahátíðinni þegar kveikt var á kertunum á trénu.
Jólamatur á aðfangadagskvöld var alltaf lambahryggur og svo hangikjöt á jóladag. Eftirmatur var niðursoðnir ávextir með rjóma og svo ávaxtagrauturinn sem ég elda enn á hverjum jólum.
Allt var þetta hefðbundið í mínum huga. Venjulega var farið í jólamessu og á jólaball, svo var auðvitað setið við útvarpið og hlustað á jólabarnatímann og spilað, en það mátti samt alls ekki á aðfangadagskvöld.
Ein hefð var alltaf viðhöfð á mínu æskuheimili á jóladagsmorgun. Þegar búið var að mjólka var sest að veisluborði, drukkið kakó með tertum og smákökum.
Stundum fengum við að fara í kaupstað fyrir jólin ef komið var bílhald á Hornafjarðarfljót og var það mikil upplifun. Ein ferð er mér þó sérstaklega minnisstæð. Þá kom jólasveinn frá Reykjavík, Ólafur Magnússon frá Mosfelli söngvari og landsfrægur jólasveinn, og skemmti börnum í Hafnarskóla. Þá fengum við að fara og fannst mér það mikil upplifun þó ég hafi verið hætt að trúa á þessa karla þá að mig minnir.
Um áramótin voru stundum nokkrar rakettur sendar upp í loftið, en aðalskemmtunin þegar leið á gamlárskvöld var að sitja við glugga á efri hæð og telja ljósin sem skutust upp í loftið á Höfn, þau voru ekki svo mörg þá að vel mátti telja.
Ég var orðin 65 ára þegar ég skreytti fyrst jólatré þar sem atvinnu minnar vegna var ég alltaf að heiman við vinnu á Þorláksmessukvöld. Maðurinn minn sá því um jólatrésskreytinguna ásamt börnum okkar og síðar sonardætrum. Svo tók ég við þegar ég var hætt öllu verslunarstússi. Þessi jólin fæ ég aðstoð frá langömmustelpunni sem er komin í heimsókn til Hafnar og hlakka mikið til.
Svo líða árin og jólin alltaf með sama hátíðleikanum í mínum huga. Þegar ég var að verða 15 ára fluttum við fjölskylda mín á Höfn. Þá breyttist margt. Þá fór maður að fara á ball í Sindrabæ á annan í jólum og síðan auðvitað á gamlárskvöld. Ég var nú heppin að fara á áramótadansleik í Sindrabæ 1966-67 því þar réðst framtíð mín.
Jólatrésskemmtanirnar í Sindrabæ voru líka hátíðlegar, að ganga í kringum jólatréð með börnunum var líka gaman. Þar sem ég er gift inn í „jólasveinaætt“ var börnunum alltaf sagt að pabbi þeirra væri á fundum þegar böllin voru og því trúðu þau auðvitað. Sama sagan endurtók sig þegar Heiðar sonur okkar fór í jólasveinabúninginn, þá var stelpunum hans sagt það sama, alltaf á fundum.
Eitt sinn kom jólasveinn á leikskólann Lönguhóla þegar Inga dóttir okkar var þar. Sveinki spilaði á harmoníku og fannst henni merkilegt að á hann vantaði einn fingur alveg eins og á pabba hennar.
Og enn líða árin og ég fer að starfa í Félagi eldri Hornfirðinga. Þar eru jólasamverurnar mjög hátíðlegar. Ég hef verið á þremur, í Ekru, á Hótel Höfn og á Smyrlabjörgum síðasta desember. Allt skilur þetta eftir góðar minningar og svo líka stóru jólatónleikarnir sem verið hafa í Hafnarkirkju sem koma öllum í hátíðaskap.
En nú er ekkert um að vera vegna kórónuveirunnar og við verðum bara að taka því, það er ekkert annað í boði. Aðalatriðið er að hlýða þríeykinu góða og fara varlega, líka um jólin, þá fer allt vel.
Það er einlæg ósk mín, og ég veit að ég tala fyrir okkur öll í stjórn félagsins, að þessu ástandi ljúki fljótlega á nýju ári 2021 og við getum hafið starfið okkar aftur af krafti. Við erum að minnsta kosti tilbúin í það.
Svo bið ég Guð að gefa ykkur öllum gleðileg jól og farsælt nýtt ár með þökk fyrir árið sem er að líða.
Jólakveðja,

Guðbjörg Sigurðardóttir.