Jákvæð heilsa og verðmætamat

0
562

Eflaust er það einstaklingsbundið hvað hver og einn telur til verðmæta. Lengst af hafa samfélög mannanna verið drifin áfram af þeim hvata að allt þurfi að aukast, vaxa og margfaldast, þannig verði verðmætin til. Til að fylgjast með gangi mála við verðmætasköpunina mælum við t.d. verga landsframleiðslu og hagvöxt. Við mælum afköst, framleiðni og árangur og oftar en ekki er mælistikan mörkuð af því hvað aðrir eru að gera. Ekki ætla ég að draga úr nauðsyn þess að hafa puttann á púlsinum og sjá hvert stefnt er, en mælingar sem þessar segja þó flestar lítið til um lífsgæði fólks og velferð þeirra sem vinna hörðum höndum að því að láta sem flesta snertifleti lífs síns fylgja lögmálum hagvaxtarins, þ.e. að allt skuli margfaldast, fara lengra, hærra og hraðar en fram kom í síðustu mælingu. Ekki vil ég tala fyrir stöðnun eða afturför en ég leyfi mér að spyrja hvort meira sé alltaf betra? Er minna, hægara, einfaldara ekki bara stundum ansi gott? Ég tel allavega heillavænlegt að leita jafnvægis þarna á milli og er á því að mikilvægi velsældarmælinga megi auka til muna og horfa til niðurstaðna úr þeim mælingum í meira mæli við alla ákvarðanatöku, hvort sem um er að ræða einstakling sem er að meta sína persónulegu stöðu eða heilu samfélögin.

Í upphafi þessara skrifa velti ég því upp hvað hver og einn gæti metið sem verðmæti. Svör við slíkri spurningu gætu orðið margþætt en rannsóknir hafa þó sýnt að framarlega í svörum við slíkum spurningum komi orðið heilsa. Flestir eru því á þeirri skoðun að heilsan sé eitt það verðmætasta sem hver og einn á. En hvað er heilsa?

Á síðu Embættis landlæknis má finna skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilsu „Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku“ (WHO, 1948). Þessi skilgreining hefur verið gagnrýnd og mörgum reynist erfitt að samsama sig henni, og vissulega er skilgreiningin komin til ára sinna. Hafa því aðrar skilgreiningar verið settar fram sem margar hverjar skýra betur hvað felst í orðinu heilsa. Aðlögun hefur t.d. verið gerð á þessari skilgreiningu WHO yfir í  Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg líðan og gerir einstaklingi kleift að lifa innihaldsríku lífi. Hollenski læknirinn Machteld Huber sem hefur helgað sig rannsóknum tengdum heilsu leggur til mun víðtækari nálgun varðandi skilgreiningu á heilsu sem hún kallar Jákvæða heilsu. Hennar skilgreining á heilsu felst í að heilsa sé getan til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu. Machteld leggur upp með að til ná tökum á því að aðlagast og stjóra ferðinni þurfi að sýna þrautseigju og horfa á hlutina í samhengi.

En hvaða samhengi er hún að tala um? Machteld hefur skipt Jákvæðri heilsu upp í sex aðal svið sem hún kallar lífshjólið, þessi svið eru:

Líkamleg virkni

Andleg vellíðan

Tilgangur

Lífsgæði

Þátttaka

Dagleg virkni

Innan hvers þessara ofangreindu sviða eru svo dæmi um athafnir og viðhorf sem auðvelda það að meta stöðuna innan hvers sviðs. Þessi skilgreining Machteld sýnir að heilsa er i grunninn mun fölþættari en áður var talið. Stóra atriðið er að þessi framangreindu svið sem skilgreina heilsu eru tengd og hafa áhrif hvert á annað.

Hvert og eitt okkar getur tekið sér tíma til að stoppa, skoða og spyrja sig spurninga, hvar stend ég með tilliti til þessara sex aðal sviða Jákvæðrar heilsu? Ég segi stoppa og skoða, því að í hröðu og streyttu samfélagi getum við hæglega göslast áfram án þess að gera okkur fyllilega grein fyrir því hvað er í gangi hjá okkur. Staðan gæti verið fín, en þá er líka gott að sjá það og þakka fyrir það sem er. Staðan gæti líka verið þannig að betra væri að bregðast við á einhvern hátt til að bæta hana. Hægt er að taka stöðuna út frá einstaklingsbundnum velsældarkvarða sem ekki byggir á samanburði við aðra og spyrja sig spurninga eins og t.d. hvernig líður mér líkamlega, andlega og félagslega, hverjar eru óskir mínar, vonir og þrár, hvernig er samskiptum mínum háttað, hvernig tekst ég á við hið óvænta (sem er og verður alltaf hluti af lífinu)?

Að skoðun lokinni getur svo hver og einn tekið ákvörðun um hvort þörf sé á að efla sig á einhverju sviðanna sex og stuðla þannig að breytingum sem hafa þá oftast jákvæð áhrif á öll hin sviðin, því samhengið og samspilið milli þessara grunnþátta er sterkt.

 Einnig þarf að gera sér grein fyrir því hvort við höfum þau tæki og tól sem þarf til að ná fram breytingunum, eða þarf að leita sér stuðnings og jafnvel sérfæðiaðstoðar, t.d. innan heilbrigðisgeirans? Það er mikilvægt að hafa í huga að þó hugmyndafræði Jákvæðrar heilsu byggi á sjálfsábyrgð og þrautseigju, merkir það ekki að sleppa eigi því að leita sér aðstoðar og gera allt sjálfur. Ein sterkasta birtingarmynd sjálfsábyrgðar og hugrekkis getur einmitt falist í því að viðurkenna það þegar maður hefur ekki réttu verkfærin, eða nær ekki að nýta sér þau, og leita sér þá hjálpar.

Mikilvægt er að horfa til forvirkra aðgerða varðandi heilsuna. Nútíma lifnaðarhættir eru ekki að vinna með okkur, það sýnir veruleg aukning á margvíslegum lífsstílssjúkdómum. Mörg okkar eigum það til að vera svolítið kærulaus þegar kemur að okkur sjálfum, erum boðin og búin að sinna öllu og öllum í kringum okkur, en hvað með okkur sjálf? Eigum við ekki líka allt got skilið frá okkur sjálfum?  Gæti það að leggja rækt við grunnþættinna sex ekki komið okkur öllum vel og stuðlaða að heilsueflingu til framtíðar? Þessi staða er ekki ný á nálinni og Jónas Kristjánsson læknir, einn helsti hvatamaður að stofnun Náttúrulækningafélags Íslands og Heilsustofnunnar fálegsins í Hveragerði, benti í grein sem hann birti árið 1950 á eftirfarandi:

Menn eru oft næsta tómlátir um varðveizlu heilsunnar, meðan hún er allgóð, en þegar hún er farin að bila, vilja menn verja sínum síðasta eyri til þess að endurheimta hana.

Forvarnir skipta vissulega máli til framtíðar, en það að sinna t.d. þessum sex sviðum stuðlar ekki síður að góðri líðan og heilbrigði í núinu. Hver kannast t.d. ekki við góða líðan eftir góða og hentuga hreyfingu, eða ánægjulega og uppbyggjandi samverustundir með öðru fólki, eða því að sinna og jafnvel ljúka krefjandi verki? Með því að vera meðvituð um og sinna þessum sviðum Jákvæðrar heilsu nærum við okkur, jafnt líkamlega, andlega og félagslega. Þó við getum ekki tryggt okkur gegn áföllum, né í sjálfu sér neinu öðru í lífinu, þá getum við með vali okkar aukið líkurnar á að verða betur í stakk búin til að takast á við slíkt ef við höfum notið núsins með því að tileinka okkur viðhorf og athafnir Jákvæðrar heilsu. Rétt er að hafa í huga að hægt er að fara offari í heilsueflandi lífsstíl þannig að áhrifin snúist upp í eitthvað allt annað en lagt var upp með svo sem aukna streitu. Gott er að hafa að leiðarljósi að miklum árangri er hægt að ná í rólegheitum og einfaldleika.

Margar rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarin ár á líðan ungmenna hér á landi og víðar, sýna að stöðugt fjölgar í þeim hópi sem metur líðan sína ekki nógu góða. Ástæðurnar fyrir þessum niðurstöðum eru vafalítið margar og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hefur á undanförnum árum tekið þessar niðurstöður alvarlega og unnið að því að styðja ungmennin okkar á margvíslegan hátt. Nemendur FAS fá til að mynda markvissa fræðslu um þætti sem geta styrkt þau í að efla heilsu sína í nútíð og framtíð og því að vera gerendur í sínu lífi. Til að greina frá nokkru þáttum sem styðja við heilsueflingu nemenda FAS þá er skólinn m.a. þátttakandi í stefnu Landlæknisembættisins Heilsueflandi framahaldsskóli, skólabyrjun á morgnana hefur verið seinkað um 30 mínútur, nemendur fá gjaldfrjálsan hafragraut á morgnana, nemendur hafa aðgang að námsráðgjafa, félagsstarf er metið til eininga og í íþrótta- og heilsutengdum kjarnaáföngum fræðast nemendur um hreyfingu, þjálffræði, mataræði, hvíld o.fl.  Nýjasta kjarnaáfanginn er jóga og núvitund þar sem athyglinni er m.a. beint að því að hægja á, efla einbeitingu og slaka á í meðvitund. Í jóga stunda nemendur hreyfingu með núvitund en í núvitund felst að halda  athyglinni meðvitað á því sem er að gerast á meðan það gerist, en ekki að einblína á fortíð eða framtíð. Nemendur þjálfast í að dvelja í raunveruleika líðandi stundar án þess að dæma eða bregðast við á annan hátt en að taka eftir því sem er.  Í áfanganum er einnig unnið með námsefni sem hannað er af Hugarafli í samstarfi við sambærileg erlend félagasamtök og stofnanir. Námsefnið heitir „Strong young minds“  eða „Sterkir ungir hugar“ Námsefnið leggur til verkfæri og úrræði til að veita ungu fólki geðheilbrigðisfræðslu.

Með þessa fjölbreyttu skilgreiningu á heilsu sem hér hefur verið fjallað um eru ótalmörg tækifæri fyrir alla til að finna leiðir til að viðhalda og  efla heilsuna í sinni fjölbreyttustu mynd. Segja má að efni þessarar greinar rúmist líklega best í orðum sálfræðingsins Viktors Frankl, höfundar bókarinnar Leitin að tilgangi lífsins, þegar hann segir „Allt er hægt að taka frá okkur nema eitt: frelsið til að velja viðhorf okkar í hvaða aðstæðum sem er

Veljum viðhorf sjálfsábyrgðar og þrautseigju, veljum heilbrigðan lífsstíl og njótum þess að vera til.

Hulda Laxdal Hauksdóttir, kennari í FAS, íþróttafræðingur, jóga- og núvitundarkennari og áhugamanneskja um heilsu og holla lifnaðarhætti.